Fjölmargir tóku þátt í loftslagsmótmælum í dag sem hófust kl. 17 þegar gengið var fylktu liði frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll. Fundurinn lagði fram áskorun til stjórnvalda og undirskriftasöfnun vegna hennar var sett formlega í loftið.
Fundinn ávörpuðu meðal annarra: Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Hildur Knútsdóttir rithöfundur, Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Eydís Blöndal rithöfundur. Tónlistarfólkið Friðrik Dór, Högni Egilsson, GDRN og Krummi sá um tónlistarflutning.
Yfir 5.000 loftslagsverkföll eru fyrirhuguð í yfir 150 löndum í dag. Allsherjarverkföll í dag marka upphaf alþjóðlegrar loftslagsviku sem tileinkuð er baráttu fyrir aðgerðir gegn loftslagsvánni en henni lýkur 27. september með öðru allsherjarverkfalli fyrir loftslagið.
Fjölmennustu mótmælin verða að öllum líkindum í New York þar sem búist er við að yfir milljón nemendur við 1.800 skóla taki þátt.