Höfðu áður boðið 100 milljónir

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns.
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns.

„Þessi afstaða kemur á óvart, og ég tel að hún sé ekki í samræmi við það sem ríkisstjórnin hafði áður látið í ljós með því að biðjast afsökunar og viðurkenna brotin.“ Þetta segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins þeirra sem sýknaður var af ákæru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að íslenska ríkið hefði hafnað öllum kröfum Guðjóns. Ragnar segir að sáttanefnd hafi áður boðið Guðjóni um 100 milljónir króna í bætur, en sú nefnd var skipuð eftir að Hæstiréttur sýknaði Guðjón og fjóra aðra sakborninga af öllum sakargiftum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Sáttanefndin lauk störfum án sátta í sumar, eftir að Guðjón hafnaði boði nefndarinnar og stefndi ríkinu.

Fjárhæð þeirra bóta, sem Guðjón hefur farið fram á, liggur ekki fyrir, en Ragnar hefur áður vísað í eldra mál frá árinu 1983 þegar manni voru greiddar 535 þúsund krónur á dag, núvirt, vegna órétt­mæts gæslu­v­arðhalds. Samsvarar það tæpum 880 milljónum króna fyrir fjögurra og hálfs árs fangelsisvist, líkt og Guðjón þurfti að afplána, en Hæstiréttur sýknaði í fyrrahaust hann og fjóra aðra sakborninga.

Guðjón Skarphéðinsson, einn fimmmenninganna sem var sýknaður í Hæstarétti í …
Guðjón Skarphéðinsson, einn fimmmenninganna sem var sýknaður í Hæstarétti í fyrra fyrir aðild að hvarfi Guðmundar og Geirfinns Einarssona. mbl.is/Golli

„Deilan hefur hingað til snúist um hverjar hæfilegar bætur eigi að vera,“ segir Ragnar og því skjóti skökku við að ríkið hafni nú algjörlega bótakröfu. „Þarna fer ríkið þá leið að segja að fólkið hafi sjálft komið sér í þessi vandræði og það beri algjörlega að líta fram hjá sýknudómi Hæstaréttar. Hér er verið að senda skilaboð til þeirra sem á eftir fara að það stoði lítt að leita réttar síns,“ segir Ragnar, en segja má að mál Guðjóns sé prófmál fyrir þá sem á eftir fara. Ragnar segir aðspurður að engin tilraun hafi verið gerð til að endurvekja sáttanefndina.

Áhyggjur af sjálfstæði dómstóla

Spurður hvort hann telji líklegt að dómstólar fallist á sjónarmið sín, segist Ragnar hafa ákveðnar áhyggjur. „Maður hefur orðið þess var að framkvæmdavaldið hefur tilhneigingu til að skipta sér af skipun dómara,“ segir Ragnar og vísar í tilfæringar Sigríðar Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, á dómaralista við skipun dómara í Landsrétt árið 2017.

„Allt slíkt hefur áhrif. Þess vegna berjast menn fyrir sjálfstæðum dómstólum, og þess vegna gengu dómar eins og þeir gengu í Strassborg,“ segir hann, en Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg komst að þeirri niðurstöðu að skipan dómara í rétt­inn hefði brotið gegn ákvæðum mann­rétt­inda­sátt­mál­an­s um réttláta málsmeðferð. Segir Ragnar aðspurður að ekki sé útilokað að mál Guðjóns endi fyrir Mannréttindadómstólnum. „En það er ekki gott að segja um það fyrir fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert