Landsréttur þyngir dóm yfir ofbeldismanni

Landsréttur dæmdi manninn í 12 mánaða fangelsi.
Landsréttur dæmdi manninn í 12 mánaða fangelsi. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur dæmt karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi. Maðurinn réðst á fyrrverandi sambýliskonu sína á heimili sínu í Reykjavík í desember og segir í dómnum að hann hafi tekið hana kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi hennar með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund, hlaut punktablæðingar aftan við eyrnasnepla og brotnaði upp úr tveimur framtönnum.

Maðurinn var í maí dæmdur í 10 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, en ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar sem þyngdi, sem fyrr segir, dóminn í 12 mánuði. Þá var manninum gert að greiða konunni 900.000 krónur í skaðabætur, auk vaxta, en hún hafði farið fram á rúma 5,1 milljón króna. Þá var manninum gert að greiða málskostnað upp á 7,1 milljón króna.

Í framburði vitna fyrir héraðsdómi kom fram að maðurinn hefði „brjálast“ á skemmtistað er hann sá konuna í samfloti með barnsmóður sinni. Maðurinn og konan hefðu rætt þar saman og að endingu ákveðið að fara heim til hans að ræða sambandsslit sín. Segir í dómnum að þar hafi konan fengið símtal frá núverandi kærasta sínum, og hefði ofbeldismaðurinn við það ráðist á hana, tekið hana hengingartaki, sem hún kallaði MMA-tak, með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund um stund. Er hún rankaði við sér hafi maðurinn rekið hana á dyr án þess að gefa henni færi á að klæða sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert