Tveir valkostir eru einkum taldir koma til greina vegna lagningar Sundabrautar. Annars vegar jarðgöng í Gufunes sem miðast við núgildandi skipulag og hins vegar lágbrú yfir Kleppsvík yfir á Holtaveg sem kallar á breytt skipulag á hafnarstarfsemi.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann bendir á að í gær var bætt við málsgrein í drög að samkomulagi um höfuðborgarpakkann um tengingu við Sundabraut.
Hann segir að sér hugnist frekar lágbrú yfir Kleppsvík.
„Bæði er hún ódýrari, henti fyrir alla samgöngumáta, þ.e. bíla, almenningssamgöngur, gangangi og hjólandi,“ skrifar ráðherra en hann segir Sundabraut auðvelda umferð á milli miðborgar og Grafarvogs, létta á umferð á höfuðborgarsvæðinu og stytta leiðir út á land.
„Síðari áfangi Sundabrautar mun síðan ná frá Gufunesi um Geldinganes, yfir Leiruvog, Gunnunes, Álfsnes og Kollafjörð að tengingu við Vesturlandsveg.
Næstu skref snúa að frekari viðræðum við Faxaflóahafnir og skipulagsyfirvöld í borginni,“ skrifar Sigurður Ingi.