Vatnsdalsvegi (vegi 722) í Húnavatnssýslu hefur verið lokað við bæinn Hjallaland vegna vatnavaxta. Skemmdir vegna vatnavaxta eru allvíða, ekki síst á Vestfjörðum og Vesturlandi að því er fram kemur í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Norðurland: Vegna vatnavaxta er Vatnsdalsvegur (vegur 722) lokaður við bæinn Hjallaland. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) September 20, 2019
Skriða lokar vegi yst á Skarðsströnd en annars staðar flæðir vatn yfir veg auk þess sem vatn er farið að skemma vegkanta. Vegagerðin biður fólk á ferðinni því að fara með mikilli gát.
Mikilli úrkomu er spáð á Suður- og Vesturlandi í dag. Appelsínugul viðvörun vegna úrkomu er í gildi á Faxaflóa og Breiðafirði en gul viðvörun á Vestfjörðum. Þá er varað við vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á vesturhelmingi landsins og er fólki bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.