Fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í máli þar sem sex einstaklingar eru ákærðir fyrir stórfelld fíkniefnabrot. Þrír þeirra eru ákærðir fyrir framleiðslu á rúmum átta kílóum af amfetamíni í sumarhúsi í Borgarfirði. Tveir af þeim hlutu áður þunga dóma í Pólstjörnumálinu svokallaða, þeir Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson. Auk þeirra er Margeir Pétur Jóhannsson ákærður fyrir þennan þátt málsins.
Þá eru þessir þrír menn ákærðir, ásamt þremur öðrum einstaklingum, fyrir stórfellda kannabisrækt í Þykkvabæ. Ákæra var gefin út í lok ágústmánaðar og snerist fyrirtakan í dag aðallega um kröfur verjenda ákærðu um að fá öll gögn málsins afhent.
Meðal gagna sem verjendur kröfðust að fá eru dagbókarfærslur lögreglu sem ritaðar voru er rannsókn stóð yfir, afrit hlerana sem og að embætti héraðssaksóknara upplýsti um önnur gögn sem urðu til við rannsókn málsins.
Sækjandi hafnaði því að leggja fram umbeðin gögn og sagði þau vera vinnugögn lögreglu en ekki málsgögn eða sönnunargögn í málinu. Nokkuð hart var tekist á um kröfurnar.
Áður en verjendur og sækjandi tjáðu sig nánar um kröfur óskaði dómari eftir því að ákærðu tækju afstöðu til sakarefnis. Þeir sem ákærðir eru fyrir framleiðslu amfetamíns tóku ekki afstöðu til sakarefnis þar sem þeir telja að enn eigi eftir að leggja fram gögn í málinu.
Varðandi ákærulið er varðar kannabisræktun og vörslu rúmlega 823 gramma af maríhúana þá játuðu hinir þrír ákærðu brot sitt. Þá viðurkenndi einn þeirra að hafa átt umrætt magn af maríhúana og að efnið væri öðrum ákærðu óviðkomandi. Var því ákveðið að ljúka þessum þætti málsins með játningu ákærðu án þess að aðalmeðferð færi fram.
Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Alvars, tók næst til máls og ítrekaði kröfu sína um að embætti héraðssaksóknara afhenti verjendum dagbókarskýrslur lögreglu, afrit af hlerunum og upplýsti um önnur þau gögn sem hafa orðið til við rannsókn málsins. Þá var farið fram á að embættið tæki til sín rannsókn á öðrum anga málsins er varðaði meint peningaþvætti, sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er með forræði á, og gæfi eftir atvikum út ákæru eða felldi málið niður. Verjendur Einars og Margeirs tóku undir þær kröfur.
Sækjandi hafnaði því, sem fyrr segir, á þeim grundvelli að um vinnuskjal væri að ræða en ekki málsgagn eða sönnunargagn í málinu. Hvað varðaði afrit af hlerunum sagði sækjandi að þau væru almennt ekki lögð fram í málum.
„Því hefur verið haldið fram að það séu til önnur gögn. Sækjanda er ekki kunnugt um að önnur gögn séu til og veit ekki hvert verjandi er að fara með þessu, að ýja að því að verið sé að halda einhverju leyndu. Ég stend á gati,” sagði sækjandinn Dagmar Ösp Vésteinsdóttir.
Stefán Karl svaraði þessu með þeim hætti að dagbókarfærslur líkt og þessar sem hann krafðist að lagðar yrðu fram í þessu máli hefðu verið lagðar fram í öðru sakamáli í vikunni, málatilbúnaði embættisins til stuðnings, og að embætti héraðssaksóknara gæti ekki valið hvenær það hentaði að leggja fram slík gögn og hvenær ekki.
„Aðilar máls eiga rétt á öllum gögnum og hann sjálfur sem er að berjast fyrir frelsi sínu á þennan rétt en ekki embættið sem er að reyna koma honum á bak við lás og slá. Við viljum fá þessi gögn og það verður barist fyrir því,“ bætti hann við.
Steinbergur Finnbogason, verjandi Margeirs, tók undir orð Stefáns og sagði kröfuna ekki flókna. Rétturinn til að fá aðgang að öllum gögnum máls væri einfaldlega lögfestur í lögum um sakamál.
Dómari tók málið í kjölfarið til úrskurðar og sagði að úrskurður félli líklega um helgina. Málinu yrði frestað þangað til að boðið yrði til þinghalds að nýju.