„Ætlunin að ná sáttum og leita lausna“

Lára V. Júlíusdóttir lögmaður.
Lára V. Júlíusdóttir lögmaður. Ljósmynd/ll3.is

„Þetta er náttúrlega bara það sem Efling hefur borið fyrir sig allan tímann, að þeim beri ekki að gera meira en þau hafa gert,“ segir Lára V. Júlíusdóttir lögmaður fjögurra einstaklinga, núverandi og fyrrverandi starfsmanna Eflingar, sem telja að stéttarfélagið hafi brotið á sér í samtali við mbl.is.

Tveir fyrr­ver­andi starfs­menn Efl­ing­ar sem telja að brotið hafi verið á rétt­ind­um sín­um hafa gert kröf­ur á hend­ur Efl­ingu með aðstoð lög­manns­ins Láru V. Júlí­us­dótt­ur. Þá hafa tveir nú­ver­andi starfs­menn Efl­ing­ar, sem eru í veik­inda­leyfi, sömu­leiðis leitað til Láru vegna þess að þeir telja að á sér hafi verið brotið. Í kvöld­frétt­um Stöðvar 2 í gær­kvöldi sagði Lára að það væri mun­ur á því hvað Efl­ing pre­dikaði og iðkaði.

Efl­ing sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu í morg­un vegna frétta­flutn­ings gær­kvölds­ins þar sem ásök­un­um og kröf­um fjór­menn­ing­anna og Láru var hafnað. Þar sagði að þær ásak­an­ir sem birst hefðu í fjöl­miðlum væru til þess falln­ar að þvinga stétt­ar­fé­lagið til þess að „gera óeðli­lega samn­inga sem eru langt um­fram rétt­indi sam­kvæmt ráðning­ar­samn­ingi og kjara­samn­ingi“.

Efling virði ekki samþykktir um starfslok

Lára gefur lítið fyrir útskýringar Eflingar og segir stéttarfélagið víkja algjörlega frá þeim sjónarmiðum og reglum sem hafa gilt um starfslok um að það eigi að fara eftir bestu samningum sem Efling gerir hverju sinni.

„Þeir líta algjörlega framhjá því og segja að það sé ekki verið að brjóta neina kjarasamninga. Með því er Efling ekki að virða þær samþykktir sem hafa verið gerðar í stjórn Eflingar og gilt hingað til varðandi starfslok starfsmanna,“ segir hún.

Fjölmiðlar hafi samband að fyrra bragði

Í yfirlýsingu Eflingar sagði að „eina skýr­ing­in á því hvers vegna mál­in eru sí og æ rek­in í fjöl­miðlum er að laga­leg­an grunn skort­ir fyr­ir um­rædd­um kröf­um“. Spurð hvers vegna ekki sé búið að höfða dómsmál í stað þess að fjalla um málin í fjölmiðlum segir Lára að það séu fjölmiðlar sem hafi samband við þetta fólk en ekki öfugt.

„Það er ekki að frumkvæði þessa fólks að það sé verið að fara í fjölmiðla. Það eru fjölmiðlar sem hafa samband vegna þess að það vekur athygli að það séu óuppgerð mál gagnvart fyrrverandi starfsmönnum Eflingar. Það er vitað og það er ekki þannig að þetta fólk sé markvisst að hrópa af torgum,“ útskýrir Lára og bætir við:

„Það var aldrei ætlunin heldur var ætlunin að ná sáttum og leita lausna.“

„Okkur liggur ekkert á“

Þá segir hún að í tilviki þeirra starfsmanna sem séu í veikindaleyfi sé ekki hægt að höfða mál þar sem Efling hafi ekki brotið gegn þeim starfsmönnum enn sem komið er. Kröfur þeirra eru hins vegar þær að samið verði um ásættanleg starfslok.

Framkvæmdastjóri Eflingar sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekki stæði til hjá Eflingu að hafa frumkvæði að því að gera starfslokasamninga við fólk í veikindaleyfi. Spurð út í þá pattstöðu segir Lára: „Þá bara bíðum við, okkur liggur ekkert á.“

Ekki tekið tillit til breyttra forsenda

Lára er einnig með mál Þráins Hallgrímssonar fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar á sínu borði en hann gerði starfslokasamning við stéttarfélagið þegar ný stjórn tók við. Hann hefur farið fram á að samið verði upp á nýtt við hann vegna breyttra forsendna hjá honum.

„Mál Þráins er annars eðlis [en þeirra starfsmanna sem eru í veikindaleyfi] vegna þess að það breyttust forsendur í hans einkalífi og hann óskaði eftir því að það yrði tekið tillit til þess en á það hefur ekki verið fallist,“ útskýrir Lára og segir það dæmi um stífni Eflingar gagnvart þessu fólki.

„Engin ástæða til að víkja henni úr starfi“

Þá er mál fjórða einstaklingsins, fyrrverandi starfsmanns Eflingar sem var sagt upp í ágústlok vegna skipulagsbreytinga, einnig annars eðlis en mál Þráins og þeirra starfsmanna sem eru í veikindaleyfi. Spurð hvort hún telji að sú uppsögn hafi ekki verið gerð á réttum lagalegum grundvelli svarar Lára:

„Við teljum að svo hafi alls ekki verið gert og það hafi ekki verið virtir samningar Eflingar um bestu kjör. Engin áminning var veitt og henni sagt að það væru skipulagsbreytingar en hennar störf halda áfram að vera unnin hjá Eflingu þannig það var engin ástæða til að víkja henni úr starfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert