„Algjörlega ömurlegt“ að ekki náist sátt

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir óásættanlegt að sakborningar í Guðmundar- …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir óásættanlegt að sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu þurfi aftur að berjast fyrir dómstólum til að sækja bætur. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir óásættanlegt að sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu þurfi aftur að berjast fyrir dómstólum til að sækja bætur.

Greint var frá því í gær að íslenska ríkið hefði hafnað 1,3 milljarða króna bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar þar sem „afstaða rík­is­stjórn­ar­inn­ar er sú að ekki sé hægt að semja á þeim for­send­um sem hann lagði upp með“, líkt og Andri Árna­son, sett­ur rík­is­lögmaður í mál­um er varða bóta­kröf­ur vegna Guðmund­ar- og Geirfinns­máls­ins, sagði í samtali við mbl.is í gær. 

„Mér finnst það algjörlega ömurlegt,“ sagði Jón í Vikulokunum á Rás 1 morgun, aðspurður hvort hann hefði ekki viljað sjá sátt nást áður en kæmi til dómsmáls að nýju. 

„Í fyrsta lagi þá er búið að sýkna þetta fólk. Það er búið að leiða fram þetta mikla ranglæti sem var viðhaft á sínum tíma og samfélagið og dómstólar hafa fallist á það. Að þetta fólk þurfi síðan aftur að fara að slást í dómsal um þessi mál er auðvitað bara ekki ásættanlegt. Ég veit að forsætisráðherra er mikið í mun að leiða þennan ágreining í jörð og reyna að ná um þetta víðtækri sátt. Það eru náttúrlega engar bætur sem í sjálfu sér geta komið til þessara einstaklinga eða fjölskyldna þeirra í einhverju féformi sem geta bætt þetta í sjálfu sér.“

Jón metur það samt sem áður svo að bætur séu ákveðin viðurkenning. Þá telur hann eðlilegt að Erla Bolladóttir, sem sak­felld var fyr­ir mein­særi í málinu, fái einnig niðurstöðu í sitt mál. Hún greindi frá því í síðasta mánuði að hún hygðist stefna ís­lenska rík­inu vegna höfn­un­ar end­urupp­töku­nefnd­ar á beiðni henn­ar um að taka upp dóm henn­ar í mál­inu. Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra hef­ur falið sett­um rík­is­lög­manni að taka af­stöðu til máls Erlu. 

„Af því sem maður þekkir þá finnst manni að hún eigi þarna rétt til þess að fá sína viðurkenningu einnig og réttlætinu framfylgt eftir öll þessi ár og þessa baráttu,“ sagði Jón. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka