„Það komust allir í mark. Það var smá töf á þriðju og síðustu drykkjarstöðinni þar sem einhverjir vildu fá tvo bjóra,“ segir Einar Sigurdórsson, einn eigenda RVK Brewing. Bjórhlaup RVK Brewing var haldið í ágætu veðri í höfuðborginni í dag.
Keppendur voru alls 600 og var uppselt í hlaupið og segir Einar að allir hafi komist í mark á endanum.
Hlaupið sjálft er ekki nema 1,6 kílómetrar en sú vegalengd hljómar eins og eitthvað sem flestir ættu að ráða við. Hins vegar ráða ekki allir við að hlaupa og stoppa þrisvar til að þamba bjór.
„Það er mjög krefjandi. Góðir hlauparar sem geta hlaupið þetta hratt lenda í vandræðum á drykkjarstöðvunum. Bjórinn gerir þetta sérstaklega erfitt,“ segir Einar en hlauparar drukku bjórinn Keppnis sem er léttur og ferskur yuzu-hrísgrjónalager.
Hlauparar þurftu að klára heilan bjór, hvolfa honum yfir höfði sér til að sýna fram á tóma dós og setja dósina í ruslið áður en þeir gátu haldið áfram af drykkjarstöð.
Einar bendir á að nafni hans Njálsson segi lykilinn að góðum tíma drykkjuhraðann. Hann vann hlaupið með yfirburðum. „Hann hljóp þetta á fimm mínútum og 35 sekúndum,“ segir Einar og hlær þegar blaðamaður spyr hvort ekki séu einhverjir sem eru lengur að klára þrjá bjóra, án hlaups.
„Hann rúllaði þessu upp og var langfyrstur. Hann var það fljótur að það var nánast enginn til að taka á móti honum þegar hann kom í mark!“ segir Einar, sem prófaði sjálfur að reka lestina í hlaupinu.
„Þetta var mjög erfitt.“
Einar gerir fastlega ráð fyrir að bjórhlaupið verði aftur haldið á næsta ári og gerir þá ráð fyrir enn fleiri þátttakendum.