„Nokkrum mánuðum eftir að hann [Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar] hafði skrifað undir starfslokasamninginn ákvað Þráinn að hann vildi betri starfslokasamning. Til þess að knýja mig til þess að útbúa betri samning hefur hann sent bréf hingað og þangað og fengið Láru V. Júlíusdóttur til að vinna sem einhverskonar innheimtumanneskju fyrir sig. Ég veit ekki hvers vegna hann fer fram með þessum hætti.“
Þetta kemur fram í facebookfærslu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem hún birti fyrir skemmstu í kjölfar fréttaflutnings af deilum fjögurra, núverandi og fyrrverandi, starfsmanna Eflingar við stéttarfélagið. Lára V. Júlíusdóttir lögmaður fjórmenninganna sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að skrifstofustjóranum fyrrverandi hefði verið sagt upp fyrirvaralaust og þvert á reglur Eflingar.
Efling sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem ásökunum Láru og fjórmenninganna er hafnað og þær sagðar vera til þess ætlaðar að „þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga sem eru langt umfram réttindi samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi.“
Í færslu Sólveigar Önnu rekur hún aðdragandann að hennar fyrsta fundi með starfsfólki Eflingar eftir að hún var kjörin formaður en áður en að hún tók formlega til starfa. Á fundinum kynnti hún sig og heilsaði starfsfólki. Í erindi hennar kom fram að hún hygðist ráða nýjan skrifstofustjóra, eitthvað sem hún hafði þá tvívegis nefnt við Sigurð Bessason, fráfarandi formann Eflingar, og talið að hann hefði komið þeim skilaboðum áleiðis.
Henni brá því mjög þegar Þráinn tók til máls á fundinum og sagðist líta svo á að honum hefði verið sagt upp þar og þá, án fyrirvara, fyrir framan alla starfsmenn Eflingar. Í færslunni segir Sólveig:
„Og nú vil ég játa að ég í reynsluleysi mínu og af barnaskap leit svo á að vegna þess að ég hafði tilkynnt Sigurði Bessasyni í það minnsta tvisvar sinnum að ég hygðist ekki hafa Þráin áfram sem skrifstofustjóra (með því minn nánasta samstafsmann) hefði Sigurður auðvitað upplýst Þráin um það.“
„Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta var auðvitað heimskulegt af mér, en ég segi það satt að mér datt ekki annað í hug. Mér brá því mjög þegar að Þráinn sagði að hann hefði ekki haft neina vitneskju um að ég ætlaði að ráða nýjan skrifstofustjóra. Ég baðst samstundis mikillar og innilegrar afsökunar og var augljóslega miður mín yfir því að hafa klúðrað þessum fyrsta starfsmannafundi,“ bætir hún við.
Hún segist hafa beðið Þráin ítrekað afsökunar, bæði á fundinum og að minnsta kosti fimm sinnum eftir hann, og reynt að útskýra fyrir honum að hún hefði talið að Sigurður hefði komið þeim skilaboðum áleiðis til hans að hún ætlaði sér að ráða nýjan skrifstofustjóra.
„Þegar ég kom svo til starfa gerði ég starfslokasamning við Þráin, sem hann skrifaði undir. Ég hótaði honum ekki eða ógnaði með neinum hætti. Þráinn var 70 ára gamall. Það samkomulag hefur að fullu verið efnt að hálfu félagsins og aldrei nokkurn tímann kom neitt annað til greina,“ segir ennfremur í færslunni.
Þá nefnir Sólveig að nokkrum mánuðum eftir að starfslokasamningur var undirritaður hefði Þráni snúist hugur og hann farið fram á betri samning með aðstoð Láru V. Júlíusdóttur lögmanns.
Hún segist ekki hafa viljað hafa Þráin sem sinn nánasta samstarfsmann og leit svo á að hún sem nýkjörinn formaður hefði eitthvað um það að segja hverjum hún ynni með. Undir lok færslunnar spyr hún svo nokkurra spurninga:
„Á ég að láta þvinga mig til að gera eitthvað sem er gegn minni betri samvisku, sem lætur mig taka ákvarðanir sem ganga gegn hagsmunum félagsins, þvinga mig til að samþykkja að afhenda fjárhæðir og endursemja um starfslok vegna þess að fólk fer fram með hótunum og árásum?“
„Átti ég að starfa með manni sem mig langaði ekkert að starfa með, vegna þess að hann leit svo á að hann einfaldlega ætti starf skrifstofustjóra Eflingar?“
„Eða mátti ég mögulega líta svo á að ég sem nýr formaður Eflingar, næststærsta verkalýðsfélags landsins, kjörin með ríflega 80% greiddra atkvæða, hefði eitthvert val, eitthvert frelsi, hefði sjálf eitthvað um það að segja hver væri minn nánasti og dagsdaglegi samstarfsfélagi?“
Þá segist Sólveig óska þess að Þráinn og Lára finni sér eitthvað annað að gera en að bera út óhróður um sig í þeim tilgangi að fá hana til að endursemja um starfslok við Þráinn.
Í samtali við mbl.is vísaði Sólveig Anna til færslu sinnar en vildi lítið tjá sig að öðru leyti um deilur innan Eflingar.