Dráttarvextir af vangreiddum bótum, sem Reykjavíkurborg þurfti að greiða um 500 lífeyrisþegum og öryrkjum eftir dóm Hæstaréttar, skerða kjör þeirra umtalsvert. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Skuldir einstaklinga við Tryggingastofnun nema nokkur hundruð þúsund krónum. Málið snertir í kringum 500 manns og hafa þegar 100 einstaklingar sótt um niðurfellingu á kröfunum hjá Tryggingastofnun. Þetta kom fram í máli Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns Öryrkjabandalags Íslands, í fréttatímanum.
Hún benti á að viðbrögð stjórnvalda við þessari stöðu hefðu ekki verið mikil. Hún hvetur fólk til að sækja um niðurfellingu á kröfunum og segir ótækt að tekjur þessara einstaklinga skerðist vegna vangreiddra bóta sem þeir eiga rétt á.
Hæstiréttur komst að því að borginni bæri að greiða sérstakar húsaleigubætur til leigjenda hjá Brynju hússjóði í Reykjavík eftir sömu reglum og giltu um aðra leigutaka. Borgin hafnaði öllum slíkum umsóknum í fjölmörg ár. Frá árinu 2009 hefur ÖBÍ gert athugasemdir við þessa afgreiðslu borgarinnar.