Umræða um frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um aukið eftirlit með barnaníðingum var kveikjan að umdeildri umfjöllun DV í gær þar sem birt voru nöfn dæmdra barnaníðinga og búsetu þeirra á landinu.
Er umfjöllunin sú fyrsta af nokkrum hjá blaðinu en von er á svipaðri umfjöllum um fleiri dæmda barnaníðinga í næsta helgarblaði. Þetta staðfestir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri DV í Morgunblaðinu í dag.
Segir hún ritstjórn blaðsins hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að birta ekki myndir af brotamönnunum eða heimilisföng þeirra en aðeins hvar á landinu þeir séu búsettir og í hvaða hverfum. Aðspurð segir hún að ritstjórnin hafi velt þeim möguleika fyrir sér að umfjöllunin gæti gengið á friðhelgi einkalífs brotamannanna sem hafi verið ein ástæðan fyrir þessari ákvörðun.
„Að sjálfsögðu veltir maður því alltaf fyrir sér þegar maður fjallar um viðkvæm málefni eins og þetta hundrað prósent er. Þetta vekur sterkar tilfinningar hjá fólki. Þannig að sjálfsögðu veltum við og að ég held bara allir fjölmiðlamenn fyrir okkur þessu þegar það er verið að fjalla um málefni sem snerta marga og snerta viðkvæmar taugar hjá mörgum,“ segir Lilja. Hún segir að meiningin hafi ekki verið að beina kastljósinu að brotum brotamannanna beinlínis, enda hafi margoft verið fjallað ítarlega um mál margra þeirra einstaklinga sem eru nafngreindir í blaðinu.
Segir hún að markmið blaðsins með umfjölluninni hafi fyrst og fremst verið að vekja umræðu um málaflokkinn og vekja athygli á frumvarpi Silju Daggar.