Vilji er fyrir því innan fjárlaganefndar að frekari úttekt verði gerð á starfsemi Íslandspósts. Þetta segir Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Málefni Íslandspósts voru til umræðu hjá nefndinni í gær. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmeðlimur, segir mikilvægt að sú úttekt verði gerð af óháðum aðila. „Mín hugmynd er að þetta fari í rannsóknarnefnd því allir eftirlitsaðilar eru í raun orðnir aðilar máls,“ segir hann í umfjöllun um málefni póstsins í Morgunblaðinu í dag.
Björn vill því að málinu verði vísað inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem færi þá yfir skipun rannsóknarnefndar. „Ég sé í raun enga aðra lausn til að klára fortíðarvandann. Svo þarf líka að glíma við framtíðarvandann og það er frekar flókið að glíma við tvenns konar vanda samtímis. Þess vegna væri mjög gott að setja fortíðarvandann í rannsóknarnefnd til þess að klára það. Nýju lögin um afnám einkaréttar eru að fara að taka gildi um áramótin og þá er hægt að fara að huga að framtíðarmúsíkinni.“