Vonar að málin leysist „allra aðila vegna“

Forystufólk VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins á …
Forystufólk VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins á fundi hjá ríkissáttasemjara. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekkert nýtt að þegar félagslega kjörnir fulltrúar koma nýir inn í mjög rótgróið, íhaldssamt og gamalt stjórnkerfi þar sem einstaklingar hafa setið árum saman og myndað stefnu sem grasrótin er óánægð með að það verði átök inni á skrifstofunni.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um átök og deilur fyrrverandi og núverandi starfsmanna Eflingar gegn sínum vinnuveitendum. Hann segir að ákveðnir starfsmenn innan Eflingar hafi beitt sér gegn framboði Sólveigar Önnu Jónsdóttur til formanns stéttarfélagsins.

Verkfall hótelstarfsfólks Eflingar stéttarfélags
Verkfall hótelstarfsfólks Eflingar stéttarfélags mbl.is/Eggert

Reyni að þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga

Tveir fyrrverandi starfsmenn og tveir núverandi starfsmenn sem eru í veikindaleyfi frá Eflingu hafa leitað til lögmannsins Láru V. Júlíusdóttur vegna þess að þeir telja að brotið hafi verið á réttindum þeirra. Lögmaður þeirra sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöldi að ekki hefði verið farið eftir reglum Eflingar við uppsagnir og að það væri munur á því sem Efling prédikaði og iðkaði.

Efling sendi frá sér yfirlýsingu í morgun vegna fréttaflutnings gærkvöldsins þar sem ásökunum fyrrverandi og núverandi starfsmanna Eflingar og lögmanns þeirra var hafnað og þær sagðar vera tilraun til að þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga við fyrrverandi starfsmenn langt umfram réttindi ráðningar- og kjarasamninga.

Spurður hvort að þeir starfsmenn sem hafi nú leitað til lögmanns séu þeir sömu og hafi beitt sér gegn framboði Sólveigar Önnu segist Ragnar ekki geta svarað því en það þurfi „ekki annað en að fletta upp blaðagreinum og yfirlýsingum ákveðinna starfsmanna“ til að sjá hverjir það voru.

Starfsmaður Eflingar nýtur aðstoðar VR

Einn af þeim starfsmönnum Eflingar, sem hafa leitað til Láru,er í VR og hefur leitað óskað eftir aðstoð VR við að ná sáttum eða leysa sín mál gagnvart Eflingu.

„Staðan á því máli er sú að viðkomandi starfsmaður með aðstoð utanaðkomandi lögmanns síns leitar til félagsins [VR] eftir aðstoð og lögmaður VR hefur tekið málið að sér og hefur verið að leita sátta fyrir hönd þessa starfsmanns með liðsinni Láru,“ útskýrir Ragnar Þór.

„Eftir því sem ég best veit hafa sáttaumleitanir verið í gangi en ekki skilað niðurstöðu,“ bætir hann við.

Geti ekki gert kröfur án lagastoðar

Í ljósi þess að í yfirlýsingu Eflingar kom fram að ásakanir fyrrverandi og núverandi starfsmanna Eflingar og lögmanns þeirra væru tilraunir til þess að þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga langt umfram réttindi kjarasamninga og að kröfur þeirra um digra og framlengda starfslokasamninga ættu sér enga stoð var Ragnar spurður að því hvort  samhljómur væri í kröfugerð lögmanns VR og Láru gagnvart Eflingu.

„Ég get ekki svarað fyrir það en það er ljóst að við [VR] getum ekki farið áfram með mál sem engin lagastoð er fyrir. Það liggur í hlutarins eðli að við getum ekki stefnt einhverjum með kröfu sem engin dómafordæmi eru fyrir,“ svaraði Ragnar og bætti við:

„Okkar markmið er að ná sáttum í málinu og ef það tekst ekki höfum við bara eina leið og það er dómstólaleiðin. Samningaleiðin skilar oftar en ekki betri niðurstöðu en dómstólaleiðin. Allra aðila vegna vona ég að þessi mál leysist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka