„Ég hitti eina sem var að fara í fjögurra ára skoðun í næstu viku og vildi að bangsinn sinn fengi fjögurra ára skoðun líka, svo hún vissi hvað í því fælist,“ segir Brynhildur K. Ásgeirsdóttir, læknanemi og einn stjórnarmanna í lýðheilsufélagi læknanema, í samtali við mbl.is um bangsaspítalann svokallaða, sem var haldinn í dag.
Á bangsaspítalanum fá sjúkir og slasaðir bangsar og tuskudýr aðhlynningu en verkefnið er árlegt og er hluti af námi læknanema á fyrsta ári, sem taka á móti böngsunum og umráðamönnum þeirra, börnunum. Er þetta fyrst og fremst gert til að kynna börnum heilbrigðisþjónustu en einnig til að læknanemar fái tækifæri á að spreyta sig í sloppnum.
Bangsaspítalinn var til húsa á heilsugæslustöðvunum Efstaleiti, Höfða og Sólvangi, og sagði Brynhildur að líklega hefðu um fimmtíu komið í heimsókn í Efstaleiti, þar sem hún var. „Við tókum okkur bara góðan tíma í þetta. Það er í raun farið yfir allt hjá bangsanum og hann settur í röntgentæki og hitt og þetta skoðað. Kvillarnir sem bangsarnir þjáðust af voru allt frá magapínu upp í ofnæmi fyrir ljósastaurum,“ segir Brynhildur, og segir að þrátt fyrir óvenjulega kvilla hafi verið unnt að lækna allt.
Lilja Karen Sigurðardóttir, þriggja ára, er ein þeirra ábyrgu bangsaumráðamanna sem fóru með slasað tuskudýr sitt á bangsaspítalann í dag. Bangsinn, einhyrningurinn Einar Áskell, hafði að Lilju sögn fallið úr rúminu um morguninn og slasað á sér fótinn. Virtist meinið í fyrstu ekki mjög alvarlegt, líklega vægur áverki á innanverðu ökklabeini (l. medial talus) gat faðir Lilju sér um, en sá er íþrótta- og heilsufræðingur að mennt. Þótti Lilju vissara að fara með Einar á spítalann og fór móðir Lilju, Sigrún Halldórsdóttir, með Lilju og Einar Áskel beinustu leið upp í Efstaleiti.
Segir Sigrún að þar hafi verið tekið á móti þeim Lilju og Einari þar sem þau fengu samtal við lækni og fóru í sameiningu yfir atvik málsins. Því næst var farið inn á læknastofu þar sem Einar var settur í röntgenmyndatöku. Í ljós kom að áverkinn á fæti hans var ekki jafn vægur og faðir Lilju hafði talið, beinið var brotið. Fékk Lilja þá að velja lit á sárabindi og plástur, og fékk svo leiðbeiningar frá lækninum um hvernig skyldi hlúa að Einari næstu daga: Knúsa fjórum sinnum á dag, borða hollt og taka það rólega.