20.000 Svansvottaðir fermetrar

Ábyrgðaraðilar við undirritun samningsins í dag. Frá vinstri Gylfi Gíslason …
Ábyrgðaraðilar við undirritun samningsins í dag. Frá vinstri Gylfi Gíslason forstjóri JÁVERKS, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Leó Árnason framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags, Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri sveitarfélagsins Árborgar. Ljósmynd/Gunnar Páll Pálsson

Stór hluti rúmlega 20.000 fermetra miðbæjarkjarna á Selfossi verður Svansvottaður. Samningur þess efnis var undirritaður fyrr í dag en samningurinn var gerður á milli Umhverfisstofnunar, þróunarfélagsins Sigtúns og sveitarfélagsins Árborgar.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir samninginn stór tíðindi bæði í íslensku og norrænu samhengi. „Við sjáum þetta sem mikla hvatningu fyrir opinbera- og einkaaðila til að stíga stór skref.“

Bygging húsanna, sem eru fjórtán talsins, er nú þegar hafin en Svansvottun felst helst í því að efni sem notuð við byggingu þeirra séu eins skaðlaus og kostur er. Sömuleiðis er orka spöruð og úrgangur flokkaður í byggingarvinnunni. 

„Þetta hefur mikil áhrif á heilsu fólks, bæði þeirra sem munu búa í þessum húsum og jafnframt þeirra sem munu vinna þar. Einnig hefur þetta jákvæð áhrif á heilsu þeirra sem koma að vinnu þeirra á byggingarstigi,“ segir Kristín. 

Stærsta Svansvottunarverkefnið

„Mesti hluti þeirra vara sem verða notaðar í  byggingarnar eru umhverfisvottaðar. Þá erum við að til að mynda að tala um timbur, sparsl, málningu og innréttingar.“

Svansvottun miðbæjarkjarnans er stærsta verkefnið af þessum toga sem ráðist hefur verið í hérlendis. „Það er nú þegar búið að votta hér á landi eitt einbýlishús og eina blokk sem oft er kölluð Ikea-blokkin svo þetta er mjög stórt og mikið verkefni.“

Tímamótaskref

Kristín segir samninginn tímamótaskref. „Byggingageirinn er talinn losa mikið af gróðurhúsalofttegundum svo það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að það sem við erum að byggja sé byggt á eins loftslagsvænan hátt og hægt er..“

Spurð hvort allar byggingar ættu ekki að vera byggðar með þessum hætti segir Kristín: „Þar sem byggingar eru í eðli sínu fjárfesting til langrar framtíðar þá er mjög mikilvægt að vanda vel til þeirra. Bæði út frá umhverfis- og heilsusjónarmiðum og þá er Svansvottun aðgengilegt og raunhæft tæki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert