Átta af níu bera ekki traust til ríkislögreglustjóra

Meirihluti lögreglustjóra á landinu, eða átta af níu, bera ekki traust til Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra. Þetta hafa Vísir og Ríkisútvarpið eftir Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Vesturlandi og formanni Lögreglustjórafélags Íslands.

Haft er eftir Úlfari í frétt Ríkisútvarpsins að samstarf lögreglustjóra við ríkislögreglustjóra síðustu fimm ár hafa verið þyrnum stráð og borið hafi á samskiptaleysi. Lögreglustjórar hafi verið áhugasamir um ýmsar breytingar en yfirstjórn ríkislögreglustjóra verið treg í taumi.

Eini lögreglustjórinn sem ber traust til Haraldar að sögn Úlfars er Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Vísar Úlfar til viðtals Morgunblaðsins við Harald og segir að mat átta lögreglustjóra að ríkislögreglustjóri geti ekki leyft sér að segja ýmislegt sem þar hafi komið fram eins og að spilling sé innan lögreglunnar.

„Hann talar um spillingu innan lögreglunnar. Hann talar um að ef hlutir fari ekki eins og hann hugsar þá eigi hann eftir að segja frá. Þetta er óábyrgt tal og sæmir ekki manni í þessari stððu,“ segir Úlfar við Ríkisútvarpið.

Staðan sem upp sé komin sé bagaleg og skaði lögregluna. Spurður hvort hann telji að ríkislögrgelustjóri eigi að víkja úr embætti segir Úlfar það mál vera á borði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Formannafundur Landssambands lögreglumanna sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem lýst var yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra og hann hvattur til að segja af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert