Hemlabúnaður bifreiðar, sem lenti framan á annarri bifreið á Grindavíkurvegi í janúar 2017 eftir að ökumaður hennar missti stjórn á henni í hálku, var í bágbornu ástandi, hjólbarðar hennar voru lélegir og hún hafði einnig misst styrk vegna ryðskemmda.
Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um slysið en ökumaður bifreiðarinnar, sem um ræðir og var af gerðinni Chevrolet, lést í slysinu. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar, sem var af gerðinni Mazda, slapp án alvarlegra meiðsla en farþegi hans hlaut hins vegar alvarlega fjöláverka. Báðir ökumenn og farþegi voru í beltum.
Fram kemur einnig í skýrslunni að ökumaðurinn hafi ekið Chevrolet-bifreiðinni of hratt, en henni var ekið á 95-110 km/klst hraða. Bifreiðin var búin slitnum negldum vetrarhjólbörðum en um þriðjungur naglanna var annaðhvort horfinn eða þeir brotnir.