Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps fór hörðum orðum um vinnubrögð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) á fundi sínum í dag, er fjallað var um þingsályktunartillögu og samþykkt á aukalandsþingi SÍS 6. september síðastliðinn. Þar var samþykkt tillaga frá stjórn SÍS um að fækka sveitarfélögum verulega á næstu árum.
Þessi samþykkt fer ekki vel í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps, eins og hefur raunar komið fram í fjölmiðlum í þessum mánuði. Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að hætta væri á því að þjónusta við íbúa sveitarfélagsins myndi versna, yrði það hluti af stærri heild. Grýtubakkahreppur er í Eyjafirði austanverðum og þar er Grenivík þéttbýliskjarninn.
Í bókun sveitarstjórnarinnar frá því í dag segir að stjórn sambandsins hafi „farið þvert gegn vilja og hagsmunum fjölmargra minni sveitarfélaga, hunsað þeirra sjónarmið og röksemdafærslu í aðdraganda tillögunnar“ og að ekki sé lengur hægt að líta á stjórnina sem „málsvara allra sveitarfélaga“.
„Við þær aðstæður hlýtur sveitarstjórn að íhuga í fullri alvöru hvort rétt sé að ganga úr sambandinu og mun fara vel yfir það á næstu vikum.“