Vinnumálastofnun sendi á síðasta ári alls 4.252 bréf til fólks sem grunsemdir voru um að haft hefði rangt við og fengið bótagreiðslur vegna atvinnuleysis á óeðlilegan hátt. Alls tókst að ljúka 617 málum eða um 15% miðað við útsend bréf.
Þetta kemur fram í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2018 sem er nýkomin út. Þar segir frá því helsta í starfseminni á liðnu ári.
Til að greiðslur frá Vinnumálastofnun séu réttar er þar starfrækt eftirlitsdeild sem samkeyrir sínar upplýsingar við gagnabanka menntastofnana, Fangelsismálastofnunar, Ríkisskattstjóra og Samgöngustofu. Haft er eftirlit með staðfestingum og innskráningum á þjónustusíðum á vef Vinnumálastofnunar sem koma frá erlendum netþjónum.
Árið 2017 sendi eftirlitsdeildin út alls 2.804 bréf vegna mála þar sem grunur lék á að fólk á bótum hefði rangt við, eða vegna rangra skráninga. Var alls 511 málum lokið með viðurlagaákvörðun, að því er fram kemur í umfjöllun um skýrsluna í Morgunblaðinu í dag.