Ólst upp við kirkjuhefð

Prestur fer ekki frá skyldustörfum hvað sem tímafjölda líður, segir …
Prestur fer ekki frá skyldustörfum hvað sem tímafjölda líður, segir Aldís Rut, hér við Langholtskirkju. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Hlutverk kirkjunnar er alltaf mikilvægt, ekki síst í nútímasamfélaginu,“ segir sr. Aldís Rut Gísladóttir. „Einsemd og kvíði eru hlutskipti margra og þá er kirkjan með sínu fjölbreytta starfi og kærleiksþjónustu mörgum ómetanleg. Kjarninn er samt boðskapur Krists sem á alltaf erindi við okkur, sama hverjar aðstæðurnar eru.“

Boðskapurinn nái til allra

Um síðastliðin mánaðamót kom Aldís Rut til starfa sem prestur við Langholtskirkju í Reykjavík. Í gær tók hún svo vígslu til starfa við athöfn í Hóladómkirkju í Hjaltadal sem sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup annaðist. Meðal fjögurra vígsluvotta þar var faðir Aldísar, sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ í Skagafirði.

Sögulegt við athöfnina á Hólum í gær er að Aldís Rut er 100. konan á Íslandi sem tekur prestsvígslu. Sú fyrsta var séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir sem vígðist árið 1974 en á þeim tíma voru skiptar skoðanir um hvort konur skyldu vera prestar.

Jákvæð upplifun

„Ég hef heyrt margt um andstöðuna sem Auði mætti, en það er ekkert sem ég hef reynt. Prestar þurfa að vera fjölbreyttur hópur svo boðskapurinn nái til allra,“ segir Aldís Rut og heldur áfram:

„Auðvitað hefur áhrif að Gísli faðir minn er prestur og móðir mín, Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir, er virkur þátttakandi í kirkjustarfinu. Þá var Gunnar Gíslason föðurafi minn prestur í Glaumbæ á undan pabba, svo segja má að ég sé alin upp við mjög ríka kirkjuhefð. Upplifun mín af þessari menningu var mjög jákvæð og mótaði mig. Að fara í guðfræðinám þegar annað gekk ekki upp kom því nánast af sjálfu sér, þótt ég tæki ekki ákvörðun um að fara í prestskap fyrr en ég var komin á síðara stig námsins.“

Við Langholtskirkju mun sr. Aldís Rut sinna barna- og æskulýðsstarfi og öðrum prestsverkum eftir atvikum. Hún er gift Ívari Björnssyni og eiga þau þrjú börn.

Nánar er rætt við Aldísi á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert