Ekki er unnt að leggja Hólasandslínu 3 miðað við þá valkosti sem kynntir eru í matsskýrslu Landsnets án þess að raska svæðum sem njóta verndar skv. sérlögum, sem njóta verndar vegna votlendis, jarðmyndana og vatnsverndar.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum háspennulínunnar sem leggja á frá tengivirki við Rangárvelli á Akureyri að tengivirki á Hólasandi í Skútustaðahreppi. Er markmiðið að bæta orkunýtingu, auka flutningsgetu og tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.
Fram kemur að aðalvalkosturinn sem Landsnet hefur sett fram muni hafa í för með sér skerðingu á votlendi víðs vegar á línuleiðinni, þó einkum á Fljótsheiði og Laxárdalsheiði, votlendi sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og forðast beri að raska nema brýna nauðsyn beri til. „Valkostir munu einnig valda skerðingu á nútímahraunum í Bárðardal og jarðstrengskostir kunna að raska hrauni í Laxárdal á afmörkuðu svæði en nútímahraun njóta einnig sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og ber að forðast að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til,“ segir m.a. í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar.