Sameiningu ætlað að auka öryggi sjúklinga og draga úr álagi

Ekki er um breytingu á þjónustu að ræða, eingöngu verið …
Ekki er um breytingu á þjónustu að ræða, eingöngu verið að færa þjónustu bráðatilfella kvenna á einn stað í stað þriggja. Bráðaþjónusta á kvennadeildum er eftir sem áður tilvísunarmóttaka. Áfram eru í notkun sömu símanúmer og áður. mbl.is/Hjörtur

Bráðaþjónusta kvennadeilda verður sameinuð 1. október 2019 og frá þeim tíma staðsett á göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningar, 22B. Markmið samræmingar og flutnings þjónustunnar er að auka öryggi sjúklinga og draga úr álagi á legudeildum kvennadeilda á þeim tíma sem mest álag er vegna bráðaþjónustu.

Þetta kemur fram á vef Landspítalans.

Þar segir ennfremur, að bráðaþjónustu á kvennadeildum Landspítala hafi til þessa verið sinnt utan dagvinnutíma á þremur stöðum í kvennadeildarbyggingunni, þ.e. á kvenlækningadeild, meðgöngu- og sængurlegudeild og fæðingarvakt.

„Árið 2016 var álag í fæðingarþjónustu og kvenlækningum kortlagt. Í ljós kom að mikið álag var á legudeildum vegna bráðaþjónustu. Fyrsta skrefið í breytingum á bráðaþjónustu var samræmd símsvörun fyrir allar deildir kvennadeildarinnar. Forprófun var gerð í janúar 2018 sem gaf tilefni til að ætla að með þessum hætti væri hægt að efla öryggi sjúklinga, bæta þjónustu og draga verulega úr áreiti á starfsfólk kvennadeilda. Símsvörun og símaráðgjöf sem veitt er af reyndri ljósmóður fór formlega af stað 1. október 2018. Í framhaldinu var hafinn undirbúningur að því að veita alla bráðaþjónustu á einum stað í húsi kvennadeilda á þeim tíma þegar álagið er mest,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert