Vilji ríkisstjórnarinnar að ná sátt

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að ná sátt í þessu máli og öll framganga ríkisstjórnarinnar hefur verið með þeim hætti að setja á laggirnar sáttanefnd, viðurkenna hið augljósa, það er hversu mikið ranglæti var framið gagnvart fólki fyrir rúmum 30 til 40 árum. Þá var málið því miður tekið upp á Alþingi á mjög óheppilegan hátt.“

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Logi kvartaði undan því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra væri ekki í þingsalnum þar sem fyrirspurnin ætti betur heima hjá henni en þess í stað væri henni beint til Sigurðar Inga.

Viðurkenndi bótarétt en neitar bótaskyldu

„Sama ríki og hafði krafist þess að þeir yrðu sýknaðir við endurupptöku málsins, hafði viðurkennt bótarétt og beðið Guðjón afsökunar neitar nú ekki aðeins bótaskyldu heldur leggur í þokkabót til að Guðjón greiði málskostnað,“ sagði Logi Már og spurði hvort Sigurður Ingi væri sáttur við þessa framgöngu ríkislögmanns sem heyrði undir stjórnarráðið.

Ráðherrann svaraði að ríkisstjórnin vildi sátt í málinu og væri einlæg í þeim efnum sem fyrr segir en Logi sagðist eiga erfitt með að trúa því enda hlyti kröfugerð ríkislögmanns að endurspegla vilja stjórnarinnar.

Sigurður Ingi svaraði þá: „Það er alltaf vont þegar mál fara í dómsferli. Þá þurfa menn að leggja fram ýtrustu kröfur. Það er vaninn í málaferlum. Það er væntanlega gert af hálfu stefnda og ríkislögmaður, sem ber þá hagsmuni að verja ríkisvaldið, gerir það væntanlega líka á móti.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert