Aðgengi að vinnustað barna of mikið

„Það eru ýmsar hættur í okkar samfélagi í dag sem …
„Það eru ýmsar hættur í okkar samfélagi í dag sem ekki voru áður og samfélagið okkar er að breytast,“ segir Þorsteinn. mbl.is/Hari

„Ef samtíminn er orðinn þannig að við þurfum að gæta betur að öryggi barnanna okkar en áður þá eigum við að gera það alveg burtséð frá því hvað okkur finnst,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands. 

Hann telur ekki viðeigandi að nálgast umræðuna um takmarkanir á aðgengi að grunnskólum landsins með þeim hætti að þjóðin vilji hafa skólana opna. Helgi Gríms­son, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Íslend­ing­ar hefðu til þessa ekki verið hlynnt­ir lokuðum grunn­skól­um.

Umræðan um takmarkanir á aðgengi að grunnskólum er tilkomin vegna atviks sem átti sér stað í Austurbæjarskóla í upphafi mánaðar. Morgunblaðið og mbl.is greindu frá mál­inu í dag en það lýt­ur að broti gegn barni. Karl­maður fór inn í Aust­ur­bæj­ar­skóla á miðjum skóla­degi og plataði níu ára gamla stúlku afsíðis þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kyn­ferðis­lega til­b­urði. Stúlk­unni tókst að kom­ast und­an og var maður­inn hand­tek­inn nokkru síðar. 

Vinnustaður barna og fullorðinna

„Að mínu viti eigum við á hverjum tíma að búa börnunum okkar það skjól sem best er fyrir þau. Ef það þýðir í dag að takmarka aðgengi að grunnskólum í þessu landi þá bara gerum við það,“ segir Þorsteinn. 

Þorsteinn Sæberg formaður Skólastjórafélags Íslands.
Þorsteinn Sæberg formaður Skólastjórafélags Íslands. Ljósmynd/Kennarasambandið

Hann telur óeðlilegt að hver sem er geti gengið inn í grunnskóla landsins. 

„Þeirri spurningu hefur auðvitað verið varpað fram innan félagsins hvort takmarka ætti aðgengi að grunnskólum. Það kom líka töluvert upp í umræðunni varðandi hina nýju persónuverndarlöggjöf þar sem ýmislegt er að gerast inni í skólastofunni á venjulegum skóladegi sem hver og einn á ekkert að geta gengið að. Þetta er vinnustaður barna og þetta er vinnustaður fullorðinna og við göngum ekkert inn á alla vinnustaði eins og okkur sýnist.“

Hefði getað gerst hvar sem er

Þorsteinn segir atvikið í Austurbæjarskóla enn frekara tilefni til þess að ræða takmarkanir á aðgengi almennings að grunnskólum landsins. 

„Ég held að þetta hefði getað gerst nánast hvar sem er því allir skólarnir eru galopnir. Það að svona hafi gerst innan grunnskóla í landinu kallar að mínu viti á það að við veltum við steinum og veltum beinlínis fyrir okkur hvort við séum að tryggja öryggi barnanna okkar á vinnustað þeirra með nægilegum hætti, það er ekkert flókið.“

Þorsteinn segist ekki öruggur á því hvernig þessar takmarkanir ættu að vera framkvæmdar en mikilvægt sé að líta vel á það.

„Ég held ekki að það sé rétt í dag, þó það hafi kannski verið rétt áður, að hver sem er geti gengið inn í grunnskóla hvenær sem er hvar sem er. Ég held bara að við séum stödd annars staðar í dag. Það eru ýmsar hættur í okkar samfélagi í dag sem ekki voru áður og samfélagið okkar er að breytast. Ísland er ekkert eitthvað alveg sér á parti. Ísland er bara hluti af stóru samhengi og við erum bara land eins og önnur. Við erum ekkert alveg allt öðru vísi en önnur lönd veraldar.“

mbl.is heyrði í Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna málsins. Þar hefur ekki verið til umræðu að takmarka aðgengi að grunnskólum. Erindi frá einhverju sveitarfélagana þyrfti að koma inn á borð sambandsins svo slíkt kæmi til umræðu enda sjálfsstjórnarvald sveitarfélaganna mikið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert