Afkomendum Sævars boðnar hæstu bæturnar

Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins við Hæstarétt í fyrra.
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins við Hæstarétt í fyrra. mbl.is/Hari

Á fundum ríkislögmanns með þeim sem voru ranglega sakfelldir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu eða afkomendum þeirra voru afkomendum Sævar Ciesielskis boðnar hæstu bæturnar, eða 240 milljónir króna. Ríkisútvarpið sagði frá þessu í kvöld.

Samkvæmt frétt RÚV voru Kristjáni Viðari Júlíussyni boðnar um 200 milljónir króna og afkomendum Tryggva Rúnars Leifssonar um það bil 160 milljónir. Þá voru Guðjóni Skarphéðinssyni boðnar um 140 milljónir og Alberti Klahn Skaftasyni í kringum 20 milljónir, samkvæmt því sem fram kemur í frétt RÚV.

Áður hafði Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, sagt í samtali við mbl.is að Guðjóni hefðu verið boðnar um 100 milljónir í bætur, en Guðjón krefst um 1,3 milljarða króna í bætur. Þeirri kröfu hefur verið hafnað af settum ríkislögmanni, en málið er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

RÚV hefur eftir viðmælendum sínum úr hópi lögmanna fimmenninganna og öðrum sem standa málunum nærri að aldrei hafi verið lögð fram skrifleg tilboð um bætur, heldur hafi þau tilboð sem komu frá Andra Árnasyni settum ríkislögmanni eða sáttanefndinni sem Kristín Heimisdóttir stýrði ýmist verið munnleg eða rituð á pappír sem ekki mátti fá afrit af, né ljósmynda eða taka með út af fundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert