Ekki er hægt að sætta sig við að dráttarvextir sem sveitarfélög borga vegna ógreiddra húsaleigubóta renni til ríkisins en ekki þess fólks sem þarf opinbera aðstoð til að draga fram lífið.
Þetta segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í tilefni af því að Tryggingastofnun hefur nú sent bakreikninga til um 500 örorkulífeyrisþega vegna dráttarvaxta á húsaleigubótum, sem Reykjavíkurborg þurfti að borga fjögur ár aftur í tímann.
Um talsverðar fjárhæðir er að tefla í mörgum tilvikum en formaður ÖBÍ væntir þess að TR felli reikningana niður, að því er framkemur í Morgunblaðinu í dag.
Fundur með fulltrúum stofnunarinnar hafi gefið ástæðu til bjartsýni um góðar lyktir. Jafnframt hefur verið óskað eftir því við félagsmálaráðherra að sett verði í reglugerð undanþáguákvæði um skerðingu bóta, sem mæta myndi jaðarmálum sem þessum. Ráðherra hefur þó svarað því til að breytingu á lögum en ekki reglugerð þurfi til og hefur málið verið stopp alveg síðan í maí síðastliðnum.