Fleiri þurfa að endurskoða öryggisferla

Atvikið átti sér stað í Austurbæjarskóla í byrjun mánaðar. Hrefna …
Atvikið átti sér stað í Austurbæjarskóla í byrjun mánaðar. Hrefna segir það mjög alvarlegt. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimila og skóla - Landssamtaka foreldra, segir atvik sem kom upp í Austurbæjarskóla fyrr í september, tilefni til þess að fara yfir alla öryggisferla og eftirlit með nemendum. 

Morgunblaðið og mbl.is greindu frá málinu fyrr í dag en það lýtur að broti gegn barni. Karl­maður fór inn í Aust­ur­bæj­ar­skóla á miðjum skóla­degi lokkaði níu ára gamla stúlku afsíðis þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kyn­ferðis­lega til­b­urði. Stúlk­unni tókst að kom­ast und­an og var maður­inn hand­tek­inn nokkru síðar. 

„Sem betur fer er svona mjög sjaldgæft. Það er áttúrulega hræðilegt þegar svona kemur upp og það vekur ýmsar spurningar, t.d. hverjir eiga greiða leið um skólann?“ segir Hrefna sem telur ljóst að nauðsynlegt sé að stofnanir sem vinnu með börnum sameinist í baráttunni gegn kynferðisbrotum.

„Það á þó ekki að þurfa fleiri tilvik“

í kjölfar atviksins hefur eft­ir­lit við inn­ganga Austurbæjarskóla verið end­ur­skoðað og all­ir starfs­menn skól­ans eru nú merkt­ir. Aðspurð segir Hrefna að fleiri skólar ættu að taka sambærilegar aðgerðir upp. 

„Þegar svona kemur upp í einum skóla þurfa allir skólar að taka þessi mál til endurskoðunar. Sem betur fer er mjög sjaldgæft að svona gerist. Það á þó ekki að þurfa fleiri tilvik.“

Atvikið ætti að vekja stofnanir til umhugsunar að sögn Hrefnu. „Þetta ætti að vera ákveðin vakning fyrir allar stofnanir sem vinna með börnum, að taka þessi mál til endurskoðunar og velta fyrir sér hvort það sé eitthvað sem sé hægt sé að gera betur eða hvort eitthvað þurfi að endurskoða. Þetta er það alvarlegt tilfelli að þegar svona kemur upp þá kallar það á að líta í eigin barm og skoða þessi mál ofan í kjölinn.“

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.

Hrefna segir þó mikilvægt að finna heppilegan milliveg.

„Við viljum auðvitað að skólinn sé öruggur staður fyrir börn, þar sem þau upplifi sig örugg og þar sem þeim líður vel en þá viljum við ekki heldur gera hann þannig að hann verði eins og eitthvert fangelsi. Svo það þarf að finna einhvern góðan meðalveg í þessu. Þetta er samt alveg ástæða til að fara vel yfir alla öryggisferla, viðbragðsáætlanir og eftirlit með nemendum.“

Mikilvægt að „fræða en ekki hræða“

Spurð hvort samtökin Heimili og skóli muni sérstaklega beita sér fyrir úrbótum í þessu samhengi segir Hrefna:

„Við erum í stöðugu samtali við alla okkar helstu samstarfsaðila. Þetta mun örugglega vera tekið upp á einhverjum fundum. Við erum t.a.m. í ýmsum samstarfshópum og nefndum er varða málefni barna. Í kjölfarið á þessu atviki verður þetta örugglega til umræðu hjá okkur og það mun þá skýrast í framhaldinu til hvaða aðgerða verður gripið en við hvetjum skóla til að fara vel yfir þessi mál í sínu nærumhverfi með það að markmiði að sjá til þess að svona tilvik endurtaki sig ekki.“

Hrefna segir fræðslu einnig mikilvæga. „Þá þarf að vanda sig, fræða en ekki hræða, og hvetjum við foreldra einnig til að ræða við börn sín í góðu tómi og æfa viðbrögð ef einhver ókunnugur reynir að lokka þau til sín.“  

Sameining gegn kynferðisbrotum nauðsynleg

Hrefna þekkir ekki til sambærilegra mála. „Ekki sem ég man eftir í augnablikinu en aftur á móti hafa komið upp mál þar sem krakkar eru á leið heim úr skóla og einhverjir vafasamir karakterar hafa reynt að fá þá til að koma upp í bíla til sín og hefur jafnvel tekist ætlunarverkið,“ segir Hrefna og heldur áfram:

„Svo er skemmst að minnast þess á dögunum þegar karlmaður braust inn í kennslustund í Háskóla Íslands á Menntavísindasviði, beraði sig og fróaði sér. Sem betur fer voru engin börn þar en ljóst er að við þurfum að sameinast um að berjast gegn svona kynferðisbrotum og að tryggt sé að unnið sé með þá sem brjóta af sér.  Brotið í Austurbæjarskóla er auðvitað lögreglumál sem þarf að meðhöndla sem slíkt.“

Rannsókn málsins hjá lögreglu er á lokastigum.

Mbl.is leitaði til foreldrafélags Austurbæjarskóla vegna málsins. Stjórn þess vildi ekki gefa út nein opinber viðbrögð að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert