Hjón ákærð fyrir peningaþvætti

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Pólsk hjón hafa verið ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir rúmlega 60 milljóna króna peningaþvætti en málið er hluti af svokölluðu EuroMarket-máli sem upp kom fyrir um tveimur árum. Frá þessu er greint á fréttavef Ríkisútvarpsins.

Hjónin gáfu þá skýringu að maðurinn hefði unnið peningana í spilakössum en dósent við Háskólann í Reykjavík telur það útilokað. Eftir að maðurinn var handtekinn í desember 2017 var gerð húsleit á heimili hjónanna og hald lagt á fjármuni.

Fram kemur í ákærunni að rannsóknin hafi verið byggð á réttarbeiðni frá Póllandi og að maðurinn hafi verið grunaður um þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi. Meðal annars smygli á fíkniefnum frá Póllandi til Íslands og peningaþvætti með konu sinni.

Skattframtöl hjónanna bentu að mati héraðssaksóknara ekki til þess að tekjur þeirra dygðu fyrir lifnaði þeirra og eignamyndun. Hjóni gáfu þá skýringu, sem fyrr segir, að maðurinn hefði unnið féð í spilakössum.

Rannsókn þykir sýna fram á það að ekki sé mögulegt að vinna slíkar fjárhæðir í spilakössum miðað við spilatíma mannsins en við mat á honum var stuðst meðal annars við staðsetningu út frá símagögnum.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert