Isavia gæti átt von á 200 milljóna króna skaðabótakröfu

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC.
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC. mbl.is/Eggert

„Það var alveg einboðið hvernig þetta færi og í sjálfu sér pínulítið merkilegt að Isavia hafi þrátt fyrir það ákveðið að halda leiðangrinum áfram með alveg skýr fordæmi á móti sér,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, í samtali við mbl.is.

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Landsréttar sem hafnaði í síðasta mánuði kröfu Isavia um að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í deilunni við ALC yrði felldur úr gildi. Héraðsdómur úrskurðaði um miðjan júlí að Isavia skyldi afhenda ALC Airbusþotu sem hafði verið kyrsett á Keflavíkurflugvelli.

Með úrskurði héraðsdóms var krafa ALC tekin til greina og beiðni Isavia um frestun réttaráhrifa þangað til að niðurstaða æðri dómstóls lægi fyrir var hafnað. Flugvélin var svo farin úr landi nokkrum dögum síðar. Í úrskurði Landsréttar, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að ALC hefði þegar fengið umráð yfir þotunni og talið að Isavia hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms.

Missti ekki svefn yfir málskotum Isavia

„Þetta var nú algjörlega viðbúið. Það eru mjög skýr og afdráttarlaus fordæmi um að það sé ekki hægt að kæra úrskurð sem búið er að framfylgja þannig það lá fyrir 18. júlí þegar sýslumaðurinn á Suðurnesjum lét aðfarargerðina fara fram að Isavia gæti ekki fengið úrlausn æðri dóms um niðurstöðu héraðsdóms,“ útskýrir Oddur og bætir við:

„Enda kom það svo á daginn að bæði Landsréttur og Hæstiréttur viðhéldu þessum fordæmum og vísuðu kæru Isavia frá.“

Spurður hvort það sé léttir að málinu sé lokið segist Oddur ekki hafa misst svefn undanfarið og tíðindin séu í raun ekki stór fyrir ALC en það sé „auðvitað gott að þessu sé formlega lokið“.

Tjón ALC sennilega ekki undir 200 milljónum króna

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum áður er ALC með það til skoðunar að höfða skaðabótamál gegn Isavia vegna kyrrsetningar flugvélarinnar og þess fjárhagstjóns sem hlaust af henni. Oddur segir það ennþá í skoðun en „það er ennþá að koma í ljós hvert endanlegt tjón er“ og því ekki hægt að taka endanlega ákvörðun ennþá.

„Það lá fyrir áður en WOW air varð gjaldþrota að þessari flugvél yrði ráðstafað til annars flugfélags með samþykki WOW air og búið að gera um hana leigusamning. Þeim leigusamningi þurfti að rifta eftir að óvissa kom upp um hvenær þotan yrði laus og af því hefur auðvitað hlotist tjón,“ útskýrir Oddur.

Hann segir að þegar endanlegt tjón liggur fyrir verði að fara fram hagsmunamat stjórnenda ALC á því hvort skaðabótamál verði höfðað. Beðinn um að gefa blaðamanni einhverja mynd af mögulegri fjárhæð tjónsins segir Oddur að tjónið sé „sennilega ekki mikið undir 200 milljónum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert