„Íslendingar vilja hafa skólana opna“

Atvikið átti sér stað í frímínútunum. Maðurinn lokkað stúlkuna með …
Atvikið átti sér stað í frímínútunum. Maðurinn lokkað stúlkuna með sér upp á þriðju hæð en hún hélt að hann væri starfsmaður skólans. mbl.is/Árni Sæberg

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur fengið mál níu ára gamallar stúlku sem brotið var á á skólatíma fyrr í þessum mánuði inn á borð til sín og leggst nú yfir það hvernig sé best að bregðast við. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hert eftirlit í skólum borgarinnar. 

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir að Íslendingar hafi til þessa ekki verið hlynntir lokuðum grunnskólum.

„Íslendingar vilja hafa skólana opna, meiri sveigjanleika og frelsi en tíðkast erlendis,“ segir Helgi. 

Mbl.is greindi frá mál­inu fyrr í dag en það lýt­ur að broti gegn barni. Karl­maður fór inn í Aust­ur­bæj­ar­skóla á miðjum skóla­degi og lokkaði níu ára gamla stúlku afsíðis þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kyn­ferðis­lega til­b­urði. Stúlk­unni tókst að kom­ast und­an og var maður­inn hand­tek­inn nokkru síðar. 

í kjöl­far at­viks­ins hef­ur eft­ir­lit við inn­ganga Aust­ur­bæj­ar­skóla verið end­ur­skoðað og all­ir starfs­menn skól­ans eru nú merkt­ir. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að taka sambærilegt hert eftirlit upp í öðrum skólum borgarinnar.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Helgi segir umræðu um það hvernig eigi að haga þessum málum í gangi en samtalið sé stærra en margir gera sér grein fyrir. 

„Þetta er samtal sem við þurfum sífellt að vera vakandi fyrir og stór samfélagsleg umræða sem varðar foreldra, börnin og aðra aðila,“ segir Helgi.

Skólar erlendis læstir

„Foreldrar sem hafa verið með börn í skólum erlendis kannast við það að þar eru skólar gjarnan læstir þar til skólinn er opnaður og öryggislæsingar á öllum hurðum svo enginn komist inn án þess að gera grein fyrir sér,“ segir Helgi. 

Hérlendis er staðan önnur. Helgi segir að Íslendingar vilji hafa skólana opna, það bjóði upp á sveigjanleika og frelsi. „Við höfum einfaldlega valið það. Til dæmis hefur hönnun skólabygginga og skólalóða tekið mið af því.“

Að mati Helga er mikilvægast að starfsfólk sé á verði en umgengnisreglur um skólana gera ráð fyrir því að utanaðkomandi aðilar geri grein fyrir sér á skrifstofu skólans. 

„Fólk á að gera vart við sig á skrifstofu þannig að starfsfólk sé meðvitað um erindi utanaðkomandi aðila, til dæmis hvað varðar iðnaðarmenn, fólk sem kemur með vörur, ættingja barna og aðra,“ segir Helgi. 

Komst fram hjá reglunum

Maðurinn sem braut gegn stúlkunni var spurður um erindi sitt í skólann af starfsfólki Austurbæjarskóla. Hann sagðist vera að leita að frænda sínum og gerði þannig grein fyrir sér. Spurður hvort það sé ekki of auðvelt fyrir óprúttna aðila að villa á sér heimildir segist Helgi ekki geta tjáð sig um einstök mál. 

„Þegar svona atvik koma fyrir förum við í gegnum umræðuna með okkar fólki því auðvitað viljum við búa börnum eins öruggt umhverfi og kostur er.“

Helgi segir nú rætt við skólastjóra í Reykjavík en óljóst er hvort gripið verði til aukinna öryggisráðstafana í heild í grunnskólum borgarinnar vegna atviksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert