Lokkaði barn upp á loft

Eftir atvikið sendi Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla, tölvupóst til foreldra …
Eftir atvikið sendi Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla, tölvupóst til foreldra barna í skólanum þar sem sagði m.a. að einstaklingur, óviðkomandi skólastarfi, hefði farið inn í skólann og haft afskipti af barni. mbl.is/Árni Sæberg

Karl­maður fór inn í Aust­ur­bæj­ar­skóla á miðjum skóla­degi í byrj­un þessa mánaðar og lokkaði níu ára gamla stúlku, nem­anda í 5. bekk við skól­ann, afsíðis þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kyn­ferðis­lega til­b­urði. Stúlk­unni tókst að kom­ast und­an og var maður­inn hand­tek­inn nokkru síðar. Eft­ir­lit við inn­ganga skól­ans hef­ur verið end­ur­skoðað og all­ir starfs­menn skól­ans eru merkt­ir. Enn hef­ur ekki verið gef­in út ákæra í mál­inu, en rann­sókn þess er á loka­stigi.

Ísold Ingvars­dótt­ir, móðir stúlk­unn­ar, fékk þær upp­lýs­ing­ar frá starfs­fólki skól­ans að maður­inn hefði verið á ferli um skól­ann í meira en klukku­stund þenn­an um­rædda dag. Þetta var í upp­hafi skóla­árs­ins, tals­verður er­ill eins og gjarn­an fylg­ir skóla­byrj­un og börn­in ekki enn búin að átta sig á öllu nýja starfs­fólk­inu í skól­an­um, eins og hún kemst að orði. „Ein­hverj­ir starfs­menn höfðu tekið eft­ir því að maður­inn var að ráfa um skól­ann og horfa inn í skóla­stof­ur. Hann var spurður hvert er­indi hans væri og hann sagðist vera að leita að frænda sín­um,“ seg­ir Ísold.

Hún seg­ir að dótt­ir sín hafi verið að reyna að kom­ast hjá því að fara út í frí­mín­út­ur. „Hún hafði búið sér til leyn­istað und­ir stiga og var á leiðinni þangað. Maður­inn kom að henni í stig­an­um og bauð henni að koma upp með sér, en uppi á þriðju hæð er leik­svæði. Hún vissi ekki bet­ur en að þetta væri nýr starfsmaður skól­ans og var meira en til í að fara með hon­um.“

„Ég má ekki frjó­sa“

Þegar stúlk­an og maður­inn voru kom­in upp á þriðju hæðina kraup hann niður fyr­ir fram­an stúlk­una og þuklaði á rassi henn­ar og kyn­fær­um utan­k­læða. „Hún sagðist fyrst hafa orðið hissa. Síðan var eina hugs­un­in sem komst að: Ég má ekki frjó­sa. Ég má ekki frjó­sa.“
Stúlk­unni tókst að losa sig frá mann­in­um og hlaupa niður þar sem hún hitti kenn­ara og sagði hon­um hvað hefði gerst. Maður­inn fór á eft­ir henni, en þegar hann sá að hún var að tala við kenn­ara hljóp hann aft­ur upp. Starfsmaður skól­ans fór á eft­ir hon­um og fann hann, gekk með hon­um niður á skrif­stofu skól­ans en á meðan verið var að hringja á lög­reglu stakk hann af.

Haft var sam­band við móður stúlk­unn­ar, Barna­vernd var kölluð til og kom strax í skól­ann og gaf stúlk­an síðar skýrslu í Barna­húsi. Starfs­fólk skól­ans bar kennsl á mann­inn sem fyrr­ver­andi nem­anda skól­ans, eft­ir nokkra daga hafði lög­regla uppi á hon­um og var hann hand­tek­inn í kjöl­farið.

Dreymdi að hún væri elt

Ísold seg­ir að þetta hafi fengið mjög á dótt­ur sína. „Fyrstu dag­arn­ir á eft­ir voru rosa­lega erfiðir. Hún fékk martraðir hverja ein­ustu nótt þar sem hana dreymdi að ein­hver eða eitt­hvað væri að elta hana. Hún var alltaf að spyrja hvort það væri búið að finna mann­inn og þegar ég sagði henni að hann væri fund­inn létti henni al­veg óskap­lega. Hún fékk alla þá aðstoð sem hún þurfti og það var mjög vel haldið utan um hana bæði í skól­an­um og hjá Barna­vernd.“

Hvaða áhrif hef­ur þetta haft á þig sem móður?

„Ég held að ég hafi fengið ein­hvers kon­ar áfall. Ég varð ofboðslega reið, eig­in­lega meira gagn­vart skól­an­um en mann­in­um, því ég lít á hann sem mann sem þarf veru­lega mikla hjálp. Ég varð reið við skól­ann því ég hélt að barnið mitt væri ör­uggt þar. Ég get ekki hugsað þá hugs­un til enda hvað hefði getað gerst ef dótt­ir mín hefði frosið og ekki getað hreyft sig, eins og mér skilst að séu al­geng viðbrögð í svona aðstæðum. Það vona auðvitað all­ir að barnið þeirra muni ekki upp­lifa neitt svona, en þetta eru aðstæður sem öll börn geta lent í.“

Spurð hvort dótt­ir henn­ar hafi áttað sig á því að hegðun manns­ins hefði verið af kyn­ferðis­leg­um toga seg­ir Ísold svo vera. „Ég hef rætt svona hluti við hana, eins og ég held að all­flest­ir for­eldr­ar geri; að fara ekki upp í bíl með ókunn­ug­um og annað í þeim dúr. Hún sagði að sem bet­ur fer hefði maður­inn hitt á hana en ekki eitt­hvert annað barn sem hefði hugs­an­lega ekki getað hlaupið í burtu. Hún sagðist alltaf hafa ímyndað sér að ef hún hitti „perra“ þá myndi hún sparka í pung­inn á hon­um eða pota í aug­un. En hún gerði hvor­ugt og hef­ur ásakað sjálfa sig fyr­ir það. Sem er auðvitað ekki gott.“

Starfs­fólk enn bet­ur á verði

Eft­ir at­vikið sendi Krist­ín Jó­hann­es­dótt­ir, skóla­stjóri Aust­ur­bæj­ar­skóla, tölvu­póst til for­eldra barna í skól­an­um þar sem sagði m.a. að ein­stak­ling­ur, óviðkom­andi skóla­starfi, hefði farið inn í skól­ann og haft af­skipti af barni. „Í kjöl­far at­viks­ins í dag verður starfs­fólk enn bet­ur á verði fyr­ir ut­anaðkom­andi ein­stak­ling­um en áður auk þess sem þetta at­vik gef­ur til­efni til að end­ur­skoða eft­ir­lit við alla inn­ganga í skól­ann,“ seg­ir í tölvu­póst­in­um.

Í skrif­legu svari við fyr­ir­spurn blaðamanns um málið sagðist Krist­ín ekki geta tjáð sig um ein­stök mál. Nú væru ein­göngu tveir inn­gang­ar skól­ans opn­ir og kenn­ar­ar og annað starfs­fólk bæri nú ein­kenn­is­spjöld með mynd.

Ísold fagn­ar þess­um viðbrögðum skól­ans. „Ég held að fólk geri sér al­mennt ekki grein fyr­ir því hversu vara­samt það get­ur verið að all­ir geti gengið inn og út úr skól­un­um. Þetta er ekk­ert eins­dæmi í Aust­ur­bæj­ar­skóla, lík­lega er þetta eins í öll­um grunn­skól­um. Ég er ekki að segja að all­ar dyr eigi að vera læst­ar, en það hlýt­ur að vera til ein­hver milli­veg­ur. Bara það að spyrja fólk hvaða er­indi það eigi inn í skól­ana gæti hugs­an­lega komið í veg fyr­ir svona at­vik.“

Rann­sókn máls­ins er á loka­stigi

Ævar Pálmi Pálma­son, lög­reglu­full­trúi í kyn­ferðis­brota­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, staðfest­ir að málið sé til rann­sókn­ar hjá embætt­inu. „Enn hef­ur ekki verið gef­in út ákæra, en rann­sókn­in er á loka­stigi,“ seg­ir Ævar. „Það hef­ur verið tek­in skýrsla af öll­um sem við koma mál­inu.“

Spurður hvort viðkom­andi ein­stak­ling­ur hafi áður komið við sögu lög­reglu vegna kyn­ferðis­brota seg­ist hann ekki geta tjáð sig um það. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka