Karlmaður fór inn í Austurbæjarskóla á miðjum skóladegi í byrjun þessa mánaðar og lokkaði níu ára gamla stúlku, nemanda í 5. bekk við skólann, afsíðis þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kynferðislega tilburði. Stúlkunni tókst að komast undan og var maðurinn handtekinn nokkru síðar. Eftirlit við innganga skólans hefur verið endurskoðað og allir starfsmenn skólans eru merktir. Enn hefur ekki verið gefin út ákæra í málinu, en rannsókn þess er á lokastigi.
Ísold Ingvarsdóttir, móðir stúlkunnar, fékk þær upplýsingar frá starfsfólki skólans að maðurinn hefði verið á ferli um skólann í meira en klukkustund þennan umrædda dag. Þetta var í upphafi skólaársins, talsverður erill eins og gjarnan fylgir skólabyrjun og börnin ekki enn búin að átta sig á öllu nýja starfsfólkinu í skólanum, eins og hún kemst að orði. „Einhverjir starfsmenn höfðu tekið eftir því að maðurinn var að ráfa um skólann og horfa inn í skólastofur. Hann var spurður hvert erindi hans væri og hann sagðist vera að leita að frænda sínum,“ segir Ísold.
Hún segir að dóttir sín hafi verið að reyna að komast hjá því að fara út í frímínútur. „Hún hafði búið sér til leynistað undir stiga og var á leiðinni þangað. Maðurinn kom að henni í stiganum og bauð henni að koma upp með sér, en uppi á þriðju hæð er leiksvæði. Hún vissi ekki betur en að þetta væri nýr starfsmaður skólans og var meira en til í að fara með honum.“
Þegar stúlkan og maðurinn voru komin upp á þriðju hæðina kraup hann niður fyrir framan stúlkuna og þuklaði á rassi hennar og kynfærum utanklæða. „Hún sagðist fyrst hafa orðið hissa. Síðan var eina hugsunin sem komst að: Ég má ekki frjósa. Ég má ekki frjósa.“
Stúlkunni tókst að losa sig frá manninum og hlaupa niður þar sem hún hitti kennara og sagði honum hvað hefði gerst. Maðurinn fór á eftir henni, en þegar hann sá að hún var að tala við kennara hljóp hann aftur upp. Starfsmaður skólans fór á eftir honum og fann hann, gekk með honum niður á skrifstofu skólans en á meðan verið var að hringja á lögreglu stakk hann af.
Haft var samband við móður stúlkunnar, Barnavernd var kölluð til og kom strax í skólann og gaf stúlkan síðar skýrslu í Barnahúsi. Starfsfólk skólans bar kennsl á manninn sem fyrrverandi nemanda skólans, eftir nokkra daga hafði lögregla uppi á honum og var hann handtekinn í kjölfarið.
Ísold segir að þetta hafi fengið mjög á dóttur sína. „Fyrstu dagarnir á eftir voru rosalega erfiðir. Hún fékk martraðir hverja einustu nótt þar sem hana dreymdi að einhver eða eitthvað væri að elta hana. Hún var alltaf að spyrja hvort það væri búið að finna manninn og þegar ég sagði henni að hann væri fundinn létti henni alveg óskaplega. Hún fékk alla þá aðstoð sem hún þurfti og það var mjög vel haldið utan um hana bæði í skólanum og hjá Barnavernd.“
Hvaða áhrif hefur þetta haft á þig sem móður?
„Ég held að ég hafi fengið einhvers konar áfall. Ég varð ofboðslega reið, eiginlega meira gagnvart skólanum en manninum, því ég lít á hann sem mann sem þarf verulega mikla hjálp. Ég varð reið við skólann því ég hélt að barnið mitt væri öruggt þar. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvað hefði getað gerst ef dóttir mín hefði frosið og ekki getað hreyft sig, eins og mér skilst að séu algeng viðbrögð í svona aðstæðum. Það vona auðvitað allir að barnið þeirra muni ekki upplifa neitt svona, en þetta eru aðstæður sem öll börn geta lent í.“
Spurð hvort dóttir hennar hafi áttað sig á því að hegðun mannsins hefði verið af kynferðislegum toga segir Ísold svo vera. „Ég hef rætt svona hluti við hana, eins og ég held að allflestir foreldrar geri; að fara ekki upp í bíl með ókunnugum og annað í þeim dúr. Hún sagði að sem betur fer hefði maðurinn hitt á hana en ekki eitthvert annað barn sem hefði hugsanlega ekki getað hlaupið í burtu. Hún sagðist alltaf hafa ímyndað sér að ef hún hitti „perra“ þá myndi hún sparka í punginn á honum eða pota í augun. En hún gerði hvorugt og hefur ásakað sjálfa sig fyrir það. Sem er auðvitað ekki gott.“
Eftir atvikið sendi Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla, tölvupóst til foreldra barna í skólanum þar sem sagði m.a. að einstaklingur, óviðkomandi skólastarfi, hefði farið inn í skólann og haft afskipti af barni. „Í kjölfar atviksins í dag verður starfsfólk enn betur á verði fyrir utanaðkomandi einstaklingum en áður auk þess sem þetta atvik gefur tilefni til að endurskoða eftirlit við alla innganga í skólann,“ segir í tölvupóstinum.
Í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns um málið sagðist Kristín ekki geta tjáð sig um einstök mál. Nú væru eingöngu tveir inngangar skólans opnir og kennarar og annað starfsfólk bæri nú einkennisspjöld með mynd.
Ísold fagnar þessum viðbrögðum skólans. „Ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir því hversu varasamt það getur verið að allir geti gengið inn og út úr skólunum. Þetta er ekkert einsdæmi í Austurbæjarskóla, líklega er þetta eins í öllum grunnskólum. Ég er ekki að segja að allar dyr eigi að vera læstar, en það hlýtur að vera til einhver millivegur. Bara það að spyrja fólk hvaða erindi það eigi inn í skólana gæti hugsanlega komið í veg fyrir svona atvik.“
Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að málið sé til rannsóknar hjá embættinu. „Enn hefur ekki verið gefin út ákæra, en rannsóknin er á lokastigi,“ segir Ævar. „Það hefur verið tekin skýrsla af öllum sem við koma málinu.“
Spurður hvort viðkomandi einstaklingur hafi áður komið við sögu lögreglu vegna kynferðisbrota segist hann ekki geta tjáð sig um það.