Ríkislögreglustjóri situr áfram í embætti enn um sinn og gerir dómsmálaráðherra ráð fyrir því að vinnu við skipulagsbreytingar innan lögreglunnar verði lokið innan örfárra vikna.
„Ég átti fund með ríkislögreglustjóra í morgun og vonum við að það samtal haldi áfram. Ég hef nú þegar sett af stað vinnu í ráðuneytinu, sem fór af stað strax í síðustu viku og það var sent bréf til lögreglustjóra, ríkislögreglustjóra, lögreglumanna og annarra hlutaðeigandi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í stjórnarráðinu.
Aðspurð hvort Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra sé stætt í starfi sagði Áslaug Arna að fyrst og fremst þyrfti að tryggja að löggæsla virkaði sem skyldi þrátt fyrir vantraustsyfirlýsingar. Átta af níu lögreglustjórum hafa lýst vantrausti á Harald.
Áslaug Arna kvað Harald ekki hafa léð máls á því að stíga til hliðar en neitaði að öðru leyti að tjá sig um það sem fram fór á fundi hennar með ríkislögreglustjóra í morgun.
„Hagsmunir lögreglunnar verða alltaf teknir fram fyrir og ég vona að niðurstaða þessarar vinnu muni leiða það af sér að við getum gert hér skipulagsbreytingar sem eru bæði góðar fyrir borgarana og ekki síst lögregluna,“ sagði Áslaug Arna þegar hún var spurð að því hvort verið væri að taka hagsmuni Haralds fram fyrir hagsmuni lögreglunnar.
Þá sagðist hún gera ráð fyrir því að vinnu við málið lyki innan örfárra vikna. „Ég sé fram á að þessari vinnu muni miða hratt áfram.“