Ríkisstjórn Íslands er saman komin í Stjórnarráðinu til reglubundinna fundarhalda. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra staðfesti við fjölmiðla þegar hún gekk inn á fundinn að málefni ríkislögreglustjóra yrðu til umræðu á fundinum.
Að öðru leyti vildi Áslaug Arna ekki tjá sig við fjölmiðla fyrr en að fundinum loknum.
Átta af níu lögreglustjórum landsins hafa lýst vantrausti á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra og er því ljóst að alvarleg staða er komin upp innan lögreglunnar í landinu.
Innan við fjórar vikur eru liðnar frá því að Áslaug Arna tók við embætti dómsmálaráðherra og er ljóst að hennar bíður ærið verkefni.