Sætafesturnar voru án vottunar og ófullnægjandi

Ökumaður fólksbifreiðarinnar sem ók yfir á rangan vegarhelming lést í …
Ökumaður fólksbifreiðarinnar sem ók yfir á rangan vegarhelming lést í slysinu. Í hinni bifreiðinni voru átta farþegar auk ökumanns, þar af sjö á barnsaldri.Allir hlutu einhver meiðsli og fjögur þeirra hlutu mikil meiðsli. mbl.is/Valli

Sætafestur sem voru notaðir til að festa niður tvo bekki í Toyota Hiace-bifreið, sem lenti í árekstri við VW-fólksbíl við Kjalarnes, voru án vottunar og ófullnægjandi. Ökumaðurinn í fólksbílnum lést í slysinu. Í Toyota-bifreiðinni voru átta farþegar auk ökumanns, þar af sjö á barnsaldri. Allir hlutu einhver meiðsli og fjögur þeirra hlutu mikil meiðsli. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.  

Slysið varð 4. júní árið 2018. Í því lést ökumaður fólksbílsins. Í hinni bifreiðinni voru átta farþegar auk ökumanns, þar af sjö á barnsaldri. Allir hlutu einhver meiðsli og fjögur þeirra hlutu mikil meiðsli. Slysið varð með þeim hætti að fólksbílnum var ekið á rangan vegarhelming við framúrakstur. Fólksbílnum var ekið norður Vesturlandsveg á Kjalarnesi og reyndi ökumaður framúrakstur sem endaði með framanáakstri á Toyota Hiace-bifreið sem ekið var suður veginn. Ökumaður fólksbílsins var einn í bílnum og lést hann í slysinu. 

Sætafesturnar voru smíðaðar hér á landi þegar bílnum, sem var skráður sem sendibifreið, var breytt í fólksbíl skömmu eftir nýskráningu árið 2006. Festingarnar sem voru notaðar til að festa bekkina tvo niður í gólf bílsins gáfu sig og bognuðu „með þeim afleiðingum að áverkar farþeganna urðu mjög sennilega meiri en ef sætafesturnar hefðu haldið,“ segir í skýrslunni. Tveir þriggja manna sætisbekkir voru settir í bifreiðina fyrir milligöngu umboðsaðila bifreiðarinnar. 

Sætafestur bekkjanna voru smíðaðar úr 8 mm flatjárni sem var fest í gólfið með tveimur boltum á endunum sitt hvorum megin. Einn bolti rifnaði upp úr gólfinu og annar slitnaði í sundur. Sætafesturnar voru smíðaðar hér á landi og voru án vottunar. „Að mati bíltæknisérfræðings var styrkur sætafestanna og frágangur þeirra ófullnægjandi. Flatjárnin gáfu sig og bognuðu ásamt því að boltar losnuðu með þeim afleiðingum að sumir farþeganna köstuðust fram á sætisbakið fyrir framan þá.“ Segir í skýrslunni. 

Sætin rifnuðu upp úr gólfi bílsins.
Sætin rifnuðu upp úr gólfi bílsins. skjáskot/skýrsla Rannsóknarnefndar samgöngslysa

Sætisbekkurinn í miðjunni rifnaði upp og köstuðust þeir farþegar framan á sætisbak farþeganna við hlið ökumannsins. Í miðjuframsæti sat fjögurra ára barn í barnabílstól og það kastaðist fram á mælaborðið. „Barnið hlaut alvarlega andlitsáverka auk annarra áverka. Fyrir aftan ökumann sat þriggja ára barn í barnabílstól. Barnið hlaut yfirborðsáverka á höfði og ristarbrot. Líklegt er að það hafi kastast fram á sætisbak ökumannssætis þegar sætisbakið í sæti þess bognaði fram. Í miðjusæti sama sætisbekkjar sat 10 ára drengur. Hann hlaut andlitsáverka, líklega við að kastast fram á sætisbakið fyrir framan sig.“ Segir í skýrslunni. 

Fleiri bílar með sambærilegar festingar í umferð

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir til Samgöngustofu að yfirfara reglur um breytingu á sætaskipan og fjölda farþegasæta í bifreiðum þannig að fyrirbyggja megi að óvottuð sæti og festingar séu settar í bifreiðar.“ Þetta kemur fram í skýrslunni. Rannsóknin hefur ennfremur leitt í ljós að fleiri bifreiðar séu í umferð sem eru útbúnar sambærilegum farþegabekkjum og í Toyota-bifreiðinni. Beint er til Samgöngustofu að tryggja úrbætur á sambærilegum sætafestum í öðrum bifreiðum í umferð. 

Mikil umferð er um Vesturlandsveg á þeim stað sem slysið varð. Rannsóknarnefndin telur brýnt að  aðgreina akstursáttir á vegum þar sem umferð er mikil til að fyrirbyggja framanákeyrslur. Ennfremur eru stjórnvöld hvött til að flýta framkvæmdum við aðgreiningu akstursátta á þessum stað en í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2019 og ljúki árið 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert