Ótímabært er að slá Sundahöfn af enda geta mannvirki þar enst næstu 50-60 árin. Fátt bendir raunar til að hafnarsvæðið sé að ljúka hlutverki sínu, nema þá að teknar verði ákvarðanir sem takmarki möguleika á notkun þess.
Þetta segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í tilefni af þeim ummælum Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra að lágbrú yfir Kleppsvík sé fýsilegasti kosturinn fyrir 1. áfanga Sundabrautar. Brú á fyrrgreindum stað myndi vissulega þrengja að starfsemi skipafélaganna en aðalstórskipahöfnin á Íslandi yrði þó væntanlega komin annað eftir nokkra áratugi.
Gísli minnir á að starfshópur undir forystu Hreins Haraldssonar, fyrrverandi vegamálastjóra, sem nú í sumar skilaði inn skýrslu um væntanlega Sundabraut, segi jarðgangagerð einu raunhæfu lausnina.
Þau hafi til dæmis lítil áhrif á möguleika til þróunar og uppbyggingar á Sundahafnarsvæðinu. Leitast þurfi þó við að lækka kostnað við gerð þeirra, að því er segir í umfjöllun um framtíð Sundahafnar í Morgunblaðinu í dag.