Þorsteinn ákærður fyrir brot gegn öðru barni

Málið gegn Þorsteini var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Málið gegn Þorsteini var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Ófeigur

Þorsteinn Halldórsson, sem í fyrra var dæmdur fyrir gróf kynferðisbrot gegn ungum pilti, hefur verið ákærður af héraðssaksóknara í öðru máli þar sem  honum er gefin svipuð háttsemi að sök. Málið gegn Þorsteini var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Héraðsdómur dæmdi Þorstein í sjö ára fangelsi fyrir fyrra brotið, en málinu var svo áfrýjað til Landsréttar sem stytti dóminn niður í fimm og hálft ár.

Ákæra hefur ekki fengist afhent frá dómstólnum vegna brotsins nú, en samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða brot gegn einu barni. Meint brot voru framin bæði fyrir og eftir að barnið náði 15 ára aldri.

Þannig er Þorsteinn ákærður fyrir brot gegn bæði fyrstu og þriðju málsgrein 202. gr. almennra hegningarlaga, en fyrsta málsgreinin varðar kynferðisbrot gegn börnum undir 15 ára aldri og sú þriðja fjallar um tælingar gegn börnum undir 18 ára aldri.

Þá er Þorsteinn ákærður fyrir vörslu barnakláms, barnalagabrot og áfengislagabrot. Sé litið til ákæruliðanna svipar ætlaðri háttsemi Þorsteins mjög til þess sem hann var dæmdur fyrir í fyrra. Í því máli var hann dæmdur fyrir að tæla ungan pilt frá því að hann var 15-17 ára gamall með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum, til þess að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök.

Foreldrar þess pilts ræddu ítarlega um málið í samtali við mbl.is í febrúar í fyrra, þar sem þau lýstu sinni reynslu af því ofbeldi sem Þorsteinn beitti son þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert