Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafa styst

Hjúkrunarheimilið í Neskaupsstað.
Hjúkrunarheimilið í Neskaupsstað. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett á áætlun framkvæmdir við gagngerar endurbætur á hjúkrunarheimilunum á Patreksfirði, Ísafirði, í Neskaupstað og í Hveragerði þar sem brýnt er orðið að bæta aðstæður og aðbúnað íbúa. Þá hefur fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu leitt til þess að biðlistar hafa styst.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.  

Heilbrigðisráðherra kynnti í apríl 2018 áætlun um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu til ársins 2023. Áætlunin fól í sér endurskoðun á eldri áætlun með auknu framkvæmdafé upp á 10,5 milljarða króna og þar með getu til að ráðst í framkvæmdir við rúmlega 300 hjúkrunarrými til viðbótar.

Áætlunin sem ráðherra kynnti tók því til uppbyggingar og endurbóta á tæplega 800 hjúkrunarrýmum til ársins 2023. Á meðfylgjandi mynd sést staða framkvæmda við uppbyggingu hjúkrunarheimila samkvæmt framkvæmdaáætlun til ársins 2023, auk þess sem bætt hefur verið inn í áætlunina með framlengingu hennar til ársins 2024.

Tímabundinn rekstur hefst á gamla Sólvangi í október

Samkvæmt nýrri samantekt Embættis landlæknis hefur fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu þegar leitt til þess að biðlistar hafa styst.

Þess má vænta að biðlistar styttist enn frekar þegar tímabundinn rekstur 38 hjúkrunarrýma hefst á gamla Sólvangi í Hafnarfirði 1. október. Þau hjúkrunarrými verða í rekstri þangað til að hjúkrunarheimilið við Sléttuveg í Reykjavík verður tekið í notkun.

Í samræmi við uppbyggingu hjúkrunarrýma er í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að auka framlög til uppbyggingar hjúkrunarrýma um 1,8 milljarð króna á næsta ári. Aukin framlög til reksturs hjúkrunarrýma sem leiðir af fjölgun þeirra nemur 1,9 milljörðum króna.

Staða framkvæmda við uppbyggingu hjúkrunarheimila samkvæmt framkvæmdaáætlun.
Staða framkvæmda við uppbyggingu hjúkrunarheimila samkvæmt framkvæmdaáætlun. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka