Bíðum átekta varðandi Belti og braut

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Utanríkismálanefnd þingsins kom saman til fundar í morgun og fékk meðal annars til sín gesti frá utanríkisráðuneytinu til þess að ræða um innviðaverkefni kínverska ríkisins, Belti og braut. Annar þeirra gesta var Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Hann segir íslensk stjórnvöld hafa þá afstöðu til verkefnisins að bíða átekta hvað varðar þátttöku í því, en segir jafnframt að það sé alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafi ekki synjað þátttöku í verkefninu.

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra.
Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Belti og braut hefur verið nokkuð til umfjöllunar hérlendis, ekki síst eftir þann misskilning sem kom upp í heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands. Pence þakkaði þá íslenskum stjórnvöldum, í samtali við fjölmiðla fyrir utan Höfða, fyrir að hafa hafnað þátttöku í þessu verkefni Kínverja og mátti skilja orð hans sem svo að íslenskir ráðamenn hefðu komið þeim boðum til hans.

En það hafa Íslendingar ekki gert og segir Borgar Þór í samtali við mbl.is að þeim skilaboðum hafi verið komið áleiðis til Bandaríkjamanna.

„Kínverjar hafa farið þess á leit við okkur að við gerðum slíkt samkomulag og við höfum metið það þannig, eins og fram hefur komið, að við værum með fríverslunarsamning og ýmsa aðra samninga við Kína sem tryggðu okkar hagsmuni og markmiðið hefur verið að láta þá koma til fullrar framkvæmdar áður en við ákveðum næsta skref. Nefndinni var gerð grein fyrir þessari afstöðu eins og hún er núna,“ segir Borgar Þór um umræðuefni fundarins í morgun, en hann segir að á fundinum hafi nefndinni verið gerð grein fyrir stöðu málsins og þeirri greiningarvinnu sem ráðuneytið hefur verið í undanfarna mánuði, auk þess sem þeim spurningum sem brunnu á nefndarmönnum hafi verið svarað.

Spurður út þann misskilning sem upp kom í heimsókn Pence í upphafi mánaðar segir Borgar Þór að réttum upplýsingum um afstöðu Íslands hafi „samstundis [verið] komið á framfæri við Bandaríkjamennina og það liggur algjörlega fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að við höfum ekki afþakkað eða synjað um þátttöku eða því að gera slíkan samning við Kínverja í einu eða öðru formi. Við höfum ekkert útilokað það. Við höfum bara sagt við Kínverjana að við ætlum að bíða átekta – og í því fylgjum við í raun flestum öðrum vesturevrópskum þjóðum og erum í miklum og góðum samskiptum við Norðurlönd um þessi mál. Þetta er sama afstaða hjá öllum, ríkin bíða átekta.“

Mike Pence vara­for­seti Banda­ríkj­anna fyrir utan Höfða í heimsókn sinni …
Mike Pence vara­for­seti Banda­ríkj­anna fyrir utan Höfða í heimsókn sinni hingað til lands á dögunum. mbl.is/Hari

Borgar segir Íslendinga vera í þeirri stöðu, ólíkt mjög mörgum öðrum vestrænum þjóðum að vera með „mjög góða samninga við Kínverja“ og því getum við beðið átekta og séð hver reynsla annarra ríkja verður af þessu samstarfi.

„Þetta var eitt af því sem var rætt á fundinum, en fundurinn er auðvitað haldinn í trúnaði og þar var verið að fara yfir upplýsingar sem við höfum aflað okkur og liggja fyrir,“ segir Borgar.

Unnið að fríverslunarsamningi við Bandaríkjamenn

Í upphafi þessarar viku bárust fréttir af því frá Bandaríkjunum að ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta horfði til þess að gera fríverslunarsamning við Ísland. Borgar Þór segir að efnahagsamráð ríkjanna, sem er undanfari gerðar fríverslunarsamnings, hafi verið í gangi allt frá því að Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom til landsins í upphafi árs.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Borgar Þór voru svo einmitt staddir í Washington fyrir síðustu helgi þar sem utanríkisráðherra átti fjölda funda með áhrifamiklum þingmönnum, til dæmis Richard Shelby formanni fjárlaganefndar öldungadeildarinnar, eins og lesa má um á vef utanríkisráðuneytisins.

Á Kapitóluhæð. Borgar Þór, Guðlaugur Þór og Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra …
Á Kapitóluhæð. Borgar Þór, Guðlaugur Þór og Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Ljósmynd af vef utanríkisráðuneytisins

Í frétt bandarísku fréttasíðunnar Axios kemur fram að öldungadeildarþingmaðurinn John Kennedy, einn þeirra þingmanna sem funduðu með utanríkisráðherra, hafi borið málið upp á hádegisverðarfundi þingflokksins, þar sem Mike Pence varaforseti var viðstaddur. Hvatti Kennedy stjórnina til þess að beita sér fyrir fríverslun við Íslendinga.

Samkvæmt frétt Axios tjáði Pence þingmönnunum að hann væri „móttækilegur“ fyrir hugmyndinni og að það væri starfshópur að skoða málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka