Fundur er hafinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar um málefni ríkislögreglustjóra þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra situr fyrir svörum. Fundur hófst klukkan níu og var Áslaug Arna kölluð inn á fund nefndarinnar um stundarfjórðungi síðar.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vék af fundi nefndarinnar þegar dómsmálaráðherra gekk inn í nefndarherbergið.
Átta af níu lögreglustjórum hafa lýst vantrausti á ríkislögreglustjóra. Áslaug Arna fundaði með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í gær og tjáði fjölmiðlum að loknum fundi hennar með ríkisstjórninni að hann sæti enn í embætti.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, segir tilefni fundarins ekki síst það hvað komi til að deilur innan lögreglunnar séu komnar á það stig að Lögreglustjórafélagið og Landssamband lögreglumanna hafi lýst yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra.
Uppfært kl. 11:05: Rætt hefur verið við Brynjar, sem kveðst hafa yfirgefið fundinn til að mótmæla vinnubrögðum Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, formanns nefndarinnar.