Eitt tilfelli veikinda flugfreyja um borð í flugvél Icelandair til viðbótar kom upp nú á sunnudag og er þetta í annað skipti á skömmum tíma sem tilkynnt er um slík veikindi. Áður hefur verið greint frá því að þrjár flugfreyjur Icelandair hafi veikst og þurft súrefni í flugi Icelandair í síðustu viku og leitaði ein þeirra til bráðamóttöku eftir lendingu.
RÚV greinir frá og hefur eftir Ásdísi Ýri Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair Group, að enn sé ekki ljóst hvort veikindin séu sambærileg þeim sem áður hafa verið tilkynnt og eru til rannsóknar.
Fyrirtækið líti málið þó alvarlegum augum og Icelandair taki nú þátt í svo nefndri FACTS rannsókn á vegum evrópsku flugöryggisstofnunarinnar EASA, sem snýr að loftgæðum í farþegarými flugvéla. Hefur ein af flugvélum Icelandair verið send til ítarlegra rannsókna á vegum EASA, en samkvæmt fyrstu niðurstöðum sé enn ekkert sem skýri veikindin.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að ekki hefði tekist að sýna fram á orsakatengsl á milli loftgæða í flugvélum og heilsufarsvandamála þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.
Sex mál sem tengjast veikindum flugfreyja um borð í vélum Icelandair eru til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa þessa stundina.