Unicef á Íslandi segir það ekki ásættanlegt að fullorðið fólk skrifi niðrandi og hatursfullar athugasemdir um Gretu Thunberg, 16 ára loftslagsaðgerðasinna. Samtökin biðja fólk um að hugsa sig tvisvar um áður en það skrifar athugasemdir á samfélagsmiðla.
„Því miður eru margir fullorðnir að skrifa niðrandi og hatursfullar athugasemdir um Gretu sem manneskju. Það er EKKI ásættanlegt. Sem loftslagsaðgerðarsinni, sem barn og sem manneskja á Greta, ásamt öðrum, rétt á að láta rödd sína heyrast!“ segir meðal annars í facebookfærslu Unicef á Íslandi.
Thunberg hefur verið nokkuð til umræðu í Bandaríkjunum síðustu daga. Á mánudag flutti hún innblásna ræðu um loftslagsmál á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hún lýsti með miklum tifinningahita hvernig leiðtogar heims væru að svíkja hennar kynslóð með því að láta hjá líða að grípa til nægra aðgerða gegn loftslagsvánni.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið gagnrýndur fyrir að hæðast að Thunberg í tísti og þá vakti mikla athygli þegar álitsgjafi í þættinum The Story with Martha MacCallum sagði Thunberg „andlega veikt sænskt barn“ sem væri verið að misnota í pólitískum tilgangi.
Fox News brást við skömmu eftir að þátturinn fór í loftið með því að segja ummælin algjörlega óásættanleg. „Við biðjum Gretu Thunberg og áhorfendur okkar afsökunar,“ sagði í yfirlýsingu frá stöðinni.
Unicef vekur athygli á því í kjölfar þessarar miklu fjölmiðlaumræðu um Thunberg að hún eigi að njóta réttar síns sem barn og sem manneskja til að láta rödd sína heyrast í loftslagsumræðunni.