Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir hreinskiptnar og góðar umræður hafa átt sér stað á fundi hennar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Þar hafi hún farið yfir þær skipulagsbreytingar sem eru til skoðunar á embætti ríkislögreglustjóra sem og stuttlega farið yfir stöðu Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra.
„Hann situr áfram sem ríkislögreglustjóri, það er verið að skoða öll þessi mál í heild sinni í ráðuneytinu. Embættið nýtur trausts, þar er verið að vinna góða vinnu og mikið af góðu fólki sem er að sinna því,“ segir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.
Aðspurð sagðist hún ekki hafa tekið sérstaklega eftir því að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yfirgaf fundinn þegar hún mætti til fundarins.
Áslaug Arna kaus að tjá sig ekki aðspurð hvort Haraldur nyti trausts í embætti ríkislögreglustjóra og segist ekki munu tjá sig um stöðu hans nema hann taki sjálfur ákvörðun um að víkja.
Hún mun á næstu dögum ræða skipulagsbreytingar innan lögreglunnar við hlutaðeigandi aðila og býst hún við að því verði lokið innan örfárra vikna. „Við munum setjast niður með þeim á næstu dögum til að ræða þær hugmyndir sem ég hef að breytingum og hvernig þau sjá fyrir sér að best sé að taka næstu skref.“
Áslaug Arna segir ákveðna togstreitu hafa myndast í því kerfi sem lögreglan starfar í í dag. „Ég tel rétt, burtséð frá öllum sérstökum málum, að skoða það og gera betur ef þörf er á.“