Vöktun á súrnun sjávar og jöklum aukin

Ríflega 250 milljónum króna verður varið til að efla vöktun …
Ríflega 250 milljónum króna verður varið til að efla vöktun á súrnun sjávar og á jöklum næstu fimm árin hér á landi. AFP

Ríflega 250 milljónum króna verður varið til að efla vöktun á súrnun sjávar og á jöklum næstu fimm árin hér á landi. Þetta var tilkynnt í dag í tilefni útkomu nýrrar skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og freðhvolfið.

Skýrslan dregur saman nýjustu og áreiðanlegustu upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á jökla og höf sem eru þeir þættir sem varða Íslendinga einna mest. Í yfirliti yfir efni skýrslunnar á vef Veðurstofu Íslands kemur m.a. fram að allar ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga, sjávarborð hækkar meira en gert var ráð fyrir og súrnun sjávar hefur aukist, að því er umhverfisráðuneytið greinir frá.

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og …
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöðum skilað til alþjóðlegra stofnana

„Ljóst er að fylgjast þarf vel með ofangreindum breytingum og af þeim sökum hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ákveðið að auka við vöktun á hafi og jöklum í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Veðurstofu Íslands.

Í dag undirrituðu ráðherra og forstjóri Hafrannsóknastofnunar samning sem felur í sér að efla vöktun á súrnun hafsins og áhrifum hennar á lífríki og vistkerfi í hafinu umhverfis Íslands. Hafrannsóknastofnun fær 35 milljónir króna á árinu 2019 og 30 milljónir króna árlega á árunum 2020-2023, eða samtals 155 milljónir króna, til þessa viðfangsefnis.

Framlögum ársins í ár verður varið til kaupa á tækjabúnaði til þess að efla vöktun sem þegar á sér stað um sýrustig í hafi, en einnig til að hefja vöktun á botndýrum m.t.t. súrnunar sjávar. Niðurstöðunum verður m.a. skilað til alþjóðlegra stofnana og samvinnuverkefna sem Ísland tekur þátt í, auk þess sem þær verða nýttar í reglulegar vísindaskýrslur um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að í dag hafi verið tilkynnt um aukna vöktun Veðurstofu Íslands á jöklum á Íslandi undir heitinu Hörfandi jöklar.

Framlögum ársins í ár verður varið til kaupa á tækjabúnaði …
Framlögum ársins í ár verður varið til kaupa á tækjabúnaði til þess að efla vöktun sem þegar á sér stað um sýrustig í hafi, en einnig til að hefja vöktun á botndýrum m.t.t. súrnunar sjávar. mbl/Arnþór Birkisson

„Alls verður 15 milljónum króna varið í vöktunina í ár og samtals 21 milljón króna frá og með næsta ári. Á árabilinu 2019-2023 er því um tæpar 100 milljónir að ræða. Framlögin verða m.a. nýtt til þátttöku í alþjóðlegum vöktunarverkefnum og til að setja upp sérstaka jöklavefsjá sem birtir uppfærðar upplýsingar um jökla og jöklabreytingar. Afkomureikningar fyrir jökla hér á landi verða einnig bættir sem mun t.d. gefa kost á birtingu daglegra upplýsinga um ákomu, leysingu og afkomu þeirra. Þá verður unnið gagnasafn um útbreiðslu íslenskra jökla og miðlun upplýsinga og myndræn framsetning bætt.

Áður hafði verið ákveðið að efla vöktun á sjávarstöðubreytingum og skriðuhættu, m.a. með vísan í afleiðingar loftslagsbreytinga. Bætt vöktun á ofangreindum þáttum styrkir starf við hættumat og almannavarnir og nýtingu auðlinda, auk þess að bæta vísindalega þekkingu. Góð vöktun er líka lykill að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum í framtíðinni,“ segir ennfremur. 

Íslensk stjórnvöld hafi stigið stórt skref í átt að aukinni þekkingu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að íslensk stjórnvöld hafi nú stigið stórt skref í átt að aukinni þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á nokkra lykilþætti eins og súrnun hafsins, jökla, skriðuhættu og sjávarstöðubreytingar. Vöktun sé afar mikilvægt tæki til að hjálpa við að að skilja m.a. betur afleiðingar hamfarahlýnunar og sé ekki síst þýðingarmikið fyrir vinnu þegar komi að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum.

„Að sama skapi er sú þekking sem hér mun verða til veigamikið innlegg Íslands til loftslagsmála á alþjóðlegum vettvangi.“

Íslenskir vísindamenn komu að gerð skýrslunnar og Veðurstofa Íslands, sem er tengiliður við starf IPCC, hefur sem fyrr segir tekið saman yfirlit yfir efni hennar og birt á heimasíðu sinni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun ávarpa kynningarfund um efni skýrslunnar á fundi í New York í dag, þar sem vísindamenn sem komu að smíði hennar munu fara yfir efni hennar og helstu niðurstöður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert