Mannréttindadómstóllinn skoðar hlutabréfaeign dómara

Mannréttindadómstóllinn hefur m.a. óskað svara við hver fjárfestingarumsvif dómaranna sem …
Mannréttindadómstóllinn hefur m.a. óskað svara við hver fjárfestingarumsvif dómaranna sem dæmdu málið hafi verið í bönkunum. mbl.is/Ófeigur

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur tekið til meðferðar kæru Ólafs Ólafssonar, sem var einn aðaleigenda Kaupþings, vegna fjárfestingarumsvifa hæstaréttardómaranna Markúsar Sigurbjörnssonar, þáverandi forseta dómsins, og Árna Kolbeinssonar í aðdraganda falls bankanna.

Fréttablaðið greinir frá þessu og segir að í bréfi sem Mannréttindadómstóllinn hafi sent málsaðilum sé þess farið á leit við íslenska ríkið hvort hægt sé að ná samkomulagi um sátt við Ólaf. Er slík sátt t.d. sögð geta grundvallast á skaða- og miskabótum, vegna dóms í Al-Thani málinu svo nefnda sem Ólafur hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir vegna markaðsmisnotkunar.

Fréttablaðið segir dómstólinn þá hafa beint þremur spurningum til íslenska ríkisins og Ólafs þar sem óskað er skýringa er snúa að málinu, meðferð þess fyrir dómstólum og hver fjárfestingarumsvif dómaranna sem dæmdu málið hafi verið í bönkunum.

Náist hins vegar ekki sættir milli málsaðila fyrir 2. desember er Mannréttindadómstóllinn sagður munu taka málið til frekari efnismeðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert