Sveinn Ævar Sveinsson, lögfræðingur hjá lögmannsstofunni Sævar Þór&Partners, hefur nýlokið meistararitgerð (ML) frá HR um fjárskipti sambúðarfólks.
Sveinn Ævar sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að við slit óvígðrar sambúðar skapaðist iðulega vafi um eignarrétt að eignum enda hafi einstaklingar sem búa saman báðir lagt til vinnu og fjármuni til kaupa þeirra og telji sig báða eigendur í samræmi við það.
„Við athugun á dómasafni Hæstaréttar blasir við að margir virðast vakna upp við vondan draum þegar kemur að slitum á óvígðri sambúð einkum þegar kemur að fjárskiptum. Snúast deilumálin oftast um fasteignir bæði þegar aðeins annar aðilinn er skráður eigandi hennar og eins þegar báðir eru skráðir jafnir eigendur. Er þá ýmist deilt um framlög hvors um sig eða hvaða réttaráhrif þau eigi að hafa,“ sagði Sveinn Ævar.
Hann segir að engin sérstök lög gildi hér á landi um skiptingu eigna sambúðarfólks við lok sambúðar hliðstætt því sem eigi við um fjárskipti við hjónaskilnað. Hann telur að þörf sé á lagasetningu um fjárskipti sambúðarfólks. Hann segir að Norðmenn og Svíar hafi lögfest ákveðnar reglur um stöðu sambúðarfólks. Hann telur veigamikil rök mæla með því að feta í fótspor þessara landa og lögfesta hér á landi sérstök lög um skiptingu eigna sambúðarfólks við sambúðarslit og hafa við samningu þeirra hliðsjón af þeirri dómaframkvæmd sem mótast hefur hér á landi. Önnur mikilvæg rök fyrir lögfestingu reglna um fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar séu þau að þá myndi fækka ágreiningsmálum við þessi fjárskipti líkt og í nágrannalöndum.