„Við gerðum okkur grein fyrir því að það yrði flókið viðfangsefni að nálgast styttingu vinnuvikunnar en við áttum ekki von á öðru en það yrði byggt á jákvæðum niðurstöðum tilraunaverkefnisins með ríkinu. En við erum að sjá núna að það er ekki nálgun þeirra,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is.
Það slitnaði upp úr kjarasamningsviðræðum BSRB og ríkisins í gær og boðaði Sonja í kjölfarið samningseiningu bandalagsins til fundar klukkan tvö í dag til þess að ræða hvort kjaradeilunni yrði vísað til ríkissáttasemjara. Spurð hvort að hún teldi að aðildarfélögin mundu samþykkja það segir Sonja:
„Ég á ekki von á öðru, það er mikil óþreyja og óánægja, hjá félagsmönnum aðildarfélaga okkar yfir því hversu hægt þetta gengur. Kjarasamningar hafa verið lausir frá 1. apríl.“
Helsta þrætuepli BSRB og ríkisins er stytting vinnuvikunnar en krafa BSRB er að hún verði stytt í 35 klukkustundir. Í tilboði ríkisins sem lagt var fram í gær var áfram miðað við 40 klukkustunda vinnuviku en opnað á möguleikann að samið yrði um að stytta vinnuvikuna á einstökum vinnustöðum með því að sleppa kaffitímum.
„Þetta er algjörlega óásættanlegt tilboð og sýnir að ríkið hefur ekki verið í kjarasamningsviðræðum af heilum hug. Við höfum nú látið reyna á samningsvilja ríkisins svo mánuðum skiptir en nú þurfum við að ræða hvort kominn sé tími á að ríkissáttasemjari taki við verkstjórninni,“ sagði Sonja í yfirlýsingu í gær.