Fjármálastjóri og bókari Eflingar hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu vegna fullyrðinga Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra stéttafélagsins, og saka hann um að hafa brotið reglur um persónuvernd.
Kristjana Valgeirsdóttir og Elín Kjartansdóttir eru báðar í veikindaleyfi frá störfum sínum og heldur stjórn Eflingar því fram að athugasemdir vegna framkvæmdar greiðslna úr sjóðum félagsins sé ekki ástæða þess að fjármálastjóra og bókara, Kristjönu og Elínu, hafi verið „bolað af skrifstofunni“, eins og tekið er til orða í yfirlýsingu Kristjönu og Elínar.
Segja þær að gögn þessu til staðfestingar megi finna í bókhaldi Eflingar og að formaður og framkvæmdastjóri hafi sýnt þeim vanvirðandi framkomu í kjölfar þess að þær kröfðust þess að vönduð vinnubrögð væru viðhöfð, sem hafi svo leitt til vanlíðanar þeirra á skrifstofunni og veikindaleyfis.
Þær hafi í tvígang sent formlegt erindi til stjórnar Eflingar og óskað eftir því að fá að koma á stjórnarfund og skýra mál sitt, en hvorugu erindinu hafi verið svarað.
Þá segja þær rangt að fjármálastjóri hafi farið fram á starfslokasamning sem nemi tugum milljóna. „Sannleikurinn er sá að slíkar kröfur hafa aldrei komið fram. Eina tilboð framkvæmdastjórans er að við eigum að stefna félaginu, vinnustaðnum okkar og stéttarfélagi.“
„Með þessu útspili brýtur framkvæmdastjóri Eflingar allar reglur um persónuvernd sem honum ber að virða. Það er óboðlegt að forsvarsmaður stéttarfélags skuli beita starfsmenn félagsins slíku ofbeldi.“