Segir samsæriskenningar langsóttar

Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi samsæriskenning er vægast sagt langsótt. Hér er um að ræða skipulagsbreytingar sem voru ræddar í stjórn félagsins, kynntar mjög rækilega fyrir starfsmönnum og hafa verið í framkvæmd á síðustu vikum,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, ritaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að nýverið hafi starfsmanni verið sagt upp fyrirvaralaust og ástæðan sem hafi verið gefin, skipulagsbreytingar, hafi verið fyrirsláttur. Þá hafi áminningarferill ekki verið virtur í samræmi við kjarasamninga.

„Ég held ég geti ekki sagt annað en að það dylst engum að þær skipulagsbreytingar eru fullkomlega raunverulegar og það er þannig að starf viðkomandi starfsmanns var lagt niður sem hluti af þessum skipulagsbreytingum,“ bætir hann við og heldur áfram:

„Ég skil ekki hvers vegna Þráinn er að vísa í áminningarferil vegna þess að þegar starfsmanni er sagt upp vegna skipulagsbreytinga þá gefur það auga leið að áminningar eru þar málinu fullkomlega óviðkomandi.“

Þá harmar Viðar árásir á lögmann ASÍ sem koma fram í grein Þráins sem sagði að lögmaðurinn hefði tekið það að sér að sannfæra starfsmanninn um að framkoma framkvæmdastjóra Eflingar í garð hans væri viðeigandi eftir að starfsmaðurinn neitaði að skrifa undir móttöku uppsagnarbréfsins.

„Ég get upplýst að í þeim tilgangi að stuðla að því að réttindi umrædds starfsmanns væru virt sem best þá óskuðum við eftir því að lögmaður ASÍ væri hér þessum starfsmanni til stuðnings og ráðgjafar og þessum starfsmanni var boðið að nýta sér þá þjónustu sem hann kaus að gera,“ útskýrir Viðar.

Hann segir að undir venjulegum kringumstæðum hefði trúnaðarmaður starfsmanna verið viðstaddur en hann hefði verið í leyfi þegar uppsögnin átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert