Skoða þarf skipulag lögreglu

Þörf er á margvíslegum úrbótum innan lögreglunnar á Íslandi, ekki síst hvað snertir skipulag og svo verkferla til að taka á spillingu.

Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu GRECO, ríkjahóps gegn spillingu innan Evrópuráðsins, sem kom út vorið 2018. Það var fjórða úttektin af því tagi síðan Ísland gerðist aðili að GRECO árið 1999.

Fulltrúar GRECO komu til Íslands í október 2017 og funduðu þá m.a. með þáverandi dómsmálaráðherra, fulltrúum dómsmálaráðuneytisins og ríkislögreglustjóra.

Markmiðið var m.a. að meta árangur aðgerða til að draga úr spillingu meðal embættismanna í stjórnunarstöðum. „Það vekur sérstaka eftirtekt í því samhengi að stýrihópur gegn spillingu, sem stjórnvöld settu á fót 2014, skuli ekki hafa útfært kerfisbundnar aðgerðir eða ofansækna stefnumótun til að stuðla að heiðarlegum starfsháttum hjá fulltrúum opinberra stofnana,“ skrifuðu skýrsluhöfundar m.a.

Almennt hafi fulltrúar GRECO komið auga á misræmi milli siðareglna á blaði og starfshátta í raun.

Skortur á eftirlitsaðila

Varðandi lögregluna var bent á að ýmsir kerfislægir þættir hömluðu innleiðingu metnaðarfyllri aðgerða til að tryggja góða starfshætti, ásamt því að fela í sér vissa áhættu. Setja þyrfti skýrari starfsreglur.

Athygli var vakin á því að í íslenska stjórnkerfinu sé ekki sérstakt embætti sem beri ábyrgð á eftirliti með málum sem varða spillingu og skylt misferli innan lögreglunnar.

„Á sama tíma hefur dómsmálaráðuneytið eftirlitshlutverk með lögreglunni og Landhelgisgæslunni og er líka yfirvald embætta sem fara með ákæruvald. Og þótt lögreglan eigi að vera undir stjórnvaldi og verkstjórn ríkislögreglustjóra fylgir skipulag lögreglunnar í raun ekki píramídaskipulagi heldur flatri stjórn. Því heyra svæðisbundnu lögreglustjórarnir jafnt og ríkislögreglustjóri undir dómsmálaráðherra. Því fer sérhver þessara níu lögreglustjóra með stjórn löggæslu í daglegum störfum í sínu umdæmi,“ skrifuðu skýrsluhöfundar GRECO.

Á Íslandi eru níu lögregluembætti en jafnframt starfa lögreglumenn hjá héraðssaksóknara og hjá ríkislögreglustjóra. Alls tæplega 700.

Skortir nauðsynlega fjarlægð

Þá hafi viðmælendur GRECO á Íslandi lýst efasemdum um það hvort lögreglumenn sem starfa daglega með öðrum lögreglumönnum hafi þá fjarlægð sem þarf til að vera hlutlausir þegar meta þarf framgöngu starfssystkina sinna.

Telja fulltrúar GRECO ljóst að heppilegra væri að stofna miðlægt embætti fyrir ýmis innri mál sem heyri undir ríkislögreglustjóra.

Samandregið telja fulltrúar GRECO tilefni til að gera umbætur á valdbrautinni innan lögreglunnar með því að veita ríkislögreglustjóra skýrt vald til að stýra og leiða innri stefnumótun í orði og á borði.

Dæmdir fyrir brot í starfi

Bent er á að lögreglan og Landhelgisgæslan séu meðal stofnana sem njóta mests trausts á Íslandi.

Fjölmiðlar hafi ekki fjallað um mörg deilumál þar sem heiðarleiki lögreglumanna var dreginn í efa.

Rifjað er upp að í nóvember 2015 hafi íslenskur lögreglumaður verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að eiga við hraðamælingu og þegið greiðslur. Þá hafi lögreglumaður verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi í apríl 2017 fyrir að selja trúnaðarupplýsingar til eiturlyfjasmyglara.

Vikið er að fundum fulltrúa GRECO á Íslandi haustið 2017.

„Viðræðurnar í október 2017 leiddu í ljós viss kerfislæg vandamál innan lögreglunnar og hættuna á pólitískum afskiptum, sem gætu reynst hindrun í að greina frá vissum vandamálum, þar með talið er varða heilindi í starfi,“ sagði þar m.a.

„Enn sem komið er er engin sérstök stefna til að koma í veg fyrir spillingu innan lögreglunnar. Stjórnvöld eru að ljúka stefnusmíði fyrir lögregluna, sem varðar hlutverk hennar í að tryggja öryggi almennings og koma í veg fyrir og takast á við glæpi,“ sagði þar jafnframt.

Fyrirspurn varðandi þetta atriði var send til dómsmálaráðuneytisins sem vísaði til löggæsluáætlunar dómsmálaráðherra fyrir 2019-23.

Skýrsluhöfundar segja það ánægjuefni að til séu siðareglur fyrir lögreglumenn. Án frekari leiðbeininga kunni hins vegar að vera óþarflega erfitt fyrir lögreglumenn að tileinka sér sumar þeirra í starfi.

„Til dæmis vísa siðareglur lögreglunnar til mútugreiðslna og spillingar en það eru engar skilgreiningar, leiðbeiningar eða dæmi um hvað heyrir undir þessi hugtök í raun. Fjallað er um hagsmunaárekstra en það sem leiðir af því er ekki alltaf ljóst (hvað eigi að gera í vissum aðstæðum, til dæmis að draga ákvörðun til baka eða greina frá aðstæðum) ...Síðast en ekki síst eru engir skýrir verkferlar til staðar sem myndu eiga við séu siðareglurnar brotnar.“

Geti veitt hlutlausa ráðgjöf

Með þetta í huga er mælst til þess að íslensk stjórnvöld þurfi að koma á vettvangi þar sem sérfræðingar, sem séu ekki í daglegum samskiptum við lögreglumenn, geti í trausti trúnaðar veitt hlutlausa ráðgjöf varðandi heilindi lögreglumanna í starfi. Því sé rétt að endurskoða siðareglurnar.

Þá er talið tilefni til að skerpa á vinnureglum varðandi afhafnir lögreglumanna utan vinnu. Þá til dæmis önnur störf. Loks er rifjað upp að í ársbyrjun 2017 hafi nefnd um eftirlit með lögreglu tekið til starfa á Íslandi sem hafi það hlutverk að fást við umkvartanir og kærur sem beinast að lögreglunni og starfsháttum hennar. Nefndin hafi þó ekki rannsóknarheimildir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert